*

Bílar 1. janúar 2018

Volvo hefur snúist í 90 ár

Eftir nokkur erfið ár í kjölfar kreppunnar árið 2008 mun Volvo slá sölumet sitt frá upphafi í ár með 560 þúsund seldar bifreiðar.

Volvo mun slá sölumet sitt frá upphafi í ár með um 560 þúsund seldar bifreiðar. Mikill kraftur er í þróun og hönnun sænska bílaframleiðandans eftir nokkur erfið ár í kjölfar kreppunnar árið 2008.

Sænski bílaframleiðandinn Volvo var stofnaður í apríl 1927. Fyrirtækið fagnar því 90 ára afmæli í ár. Stofnendurnir voru tveir, Assar Gabrielsson og Gustaf Larsson. Félagarnir höfðu starfað hjá sænska kúluleguframleið- andanum SFK sem lagði Volvo til stofnfé. SFK seldi sig svo út úr Volvo í kjölfar skráningar í kauphöll árið 1935. Nafnið Volvo kemur úr latínu og þýðir ég snýst. Merki félagsins var tekið af vatnskassa fyrsta bílsins, Volvo ÖV 4. Volvo AB, sem í dag framleiðir vörubílana, seldi fólksbílahlutann árið 1999 til Ford Motors. í dag er hann í eigu kínverska bílarisans Geely. Fyrirtækin tvö eiga Volvo-merkið sameiginlega.

Amerískir bílar ekki nógu góðir

Stofnendurnir höfðu kynnst amerískum bílum og töldu gæðin ekki nægjanleg í kuldanum í Svíþjóð. Frá upphafi voru lögðu þeir áherslu á gæði og öryggi. Í maí 1932 hafði Volvo framleitt 10 þúsund bifreiðar og vörubíla. Umboðsmönnum Volvo þótti bílarnir of stórir, það vantaði bíl fyrir fólkið og árið 1936 kom PV51 til sögunnar. Árið 1944 setti Volvo PV444 og PV544 á markað sem voru vinsælir bílar og voru upphafið að innrás sænska bílaframleiðandans inn á bandarískan markað. Volvo 120 – kallaður Amazon - kom á markað 1956 og var vinsæll.

Áhersla á öryggi

Sænski bílaframleiðandinn hefur lagt ríka áherslu á öryggi. Árið 1959 varð þriggja punkta öryggisbelti staðalbúnaður í framsætum, á undan öllum bílaframleiðendum. Árið 1972 varð það einnig staðalbúnaður í aftursæti. Árið 1964 tók Volvo þátt í þróun fyrsta barnabílstólsins og hefur þaðan í frá lagt ríka áherslu á bílstóla og sessa í hönnun sinni.

Framleiðslugetan eykst verulega 1964

Frá 1927 var verksmiðja Volvo í Lundby í Gautaborg. Framleiðslugetan hafði vaxið ár frá ári en árið 1960 hafði hún náð hámarki, um 78 þúsund bílar. Árið 1964 var ný verksmiðja opnuð í Torslanda í Gautarborg. Framleiðslugetan var 200 þúsund bílar á ári en er 300 þúsund í dag. Ári seinna var opnuð verksmiðja í Gent í Belgíu. Fyrsta árið voru framleiddir 14 þúsund bílar en í dag getur hún framleitt 250 þúsund bíla. Fleiri verksmiðjur voru opnaðar á þessum árum, m.a. í Halifax í Kanada og Malasíu.

Nánar er fjallað um málið í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.