*

Bílar 3. júní 2015

Volvo kynnir nýjan lúxusjeppa

Allt það nýjasta og besta frá Volvo verður í nýjum lúxusjeppa framleiðandans.

Nýr Volvo XC90 er sjö sæta lúxusjeppi með öllu því nýjasta og besta frá Volvo. Bíllinn er búinn nýrri tækni, nýjum öryggiskerfum og er jafnframt með nýju útliti. Blaðamaður Viðskiptablaðsins var viðstaddur árekstrarprófun á nýjum XC90 um áramótin.

Volvo XC90 kom fyrst á markað fyrir 13 árum síðan en nýjasta kynslóð þessa veglega sportjeppa verður kynnt hér á landi um helgina. Þróun nýja bílsins hefur tekið 4 ár og fjárfest hefur verið fyrir meira en 11 milljarða dollara í verkefninu. Volvo kynnti sérstaka First Edition útgáfu af nýja Volvo XC90 síðasta haust. Salan fór eingöngu fram á netinu og var framboðið takmarkað við 1.927 en talan vísar til stofnárs Volvo. Allir bílarnir seldust upp á aðeins 48 klukkutímum. Nýi Volvo XC90 er fyrsti bíllinn sem er byggður með nýrri undirvagnstækni Volvo sem kallast Scalable Products Architecture eða SPA. 

Ytra útlit nýja Volvo XC90 gefur tóninn fyrir komandi kynslóðir Volvo bíla. Allur framendinn er einbeittur og með nýjum svip. Axlalínan er einnig orðin enn meira áberandi og bíllinn því mun kraftalegri fyrir vikið. Innanrýmið er líka mjög laglegt, en aldrei fyrr hefur Volvo hannað innanrými með jafn miklum lúxus. Mest áberandi í innanrýminu er stór snertiskjár í miðjustokk bílsins með samskonar flettimöguleika og er í iPad. Snertiskjárinn, sem er óvenju stór, myndar hjarta nýs stjórnkerfis Volvo og gerir mælaborðið nánast takkalaust.

Nýr XC90 er búinn nýrri kynslóð fjögurra strokka Drive-E véla sem bjóða upp á góðan akstur en með miklu minni eldsneytisnotkun og koltvísýringslosun. Eldsneytisnotkun nýju Drive-E D5 dísilvélarinnar í blönduðum akstri er aðeins 5,8 l/100 km og CO2 losun er einungis 152 g/km. Nýlega þróaði Volvo nýja 8 gíra sjálfskiptingu sem verður í öllum nýjum Volvo XC90 en skiptingin hefur fengið mikið lof frá bílasérfræðingum. Volvo XC90 er fjórhjóladrifinn og nokkuð hátt er undir lægsta punkt, eða 23,7 cm. Dráttargeta Volvo XC90 með D5 dísilvélinni er 2.700 kg.

Nýr XC90 verður frumsýndur hjá Brimborg um helgina. Á föstudaginn er opið frá kl. 10-17, á laugardaginn frá kl. 12-16 og á sunnudaginn frá kl. 13-16.

Stikkorð: Volvo