
Volvo frumsýndi nýja XC90 í París. Fyrstu bílarnir af XC90 verða framleiddir í takmörkuðu upplagi. Á 47 klukkustundum fylltist rafræna pöntunarbókin, en 1.927 eintök verða framleidd. Það er gert með vísan til stofnárs sænska bílaframleiðandans.
Gríðarleg fjárfesting
Volvo merkir að rúlla eða velta á latínu (Enda hét umboðsaðili Volvo á Íslandi eitt sinn Veltir). XC90 bíllinn er fyrsti bílinn sem sýnir að Volvo er kominn af stað, eftir talsvert langan stöðnunartíma. Fyrsta kynslóðin af jeppanum fór í framleiðslu sumarið 2002 og framleiðslu var hætt í júlí. Hann var því í 12 ár í framleiðslu, en helstu samkeppnisaðilarnir eru að endurhanna sína bíla á u.þ.b. 8 ára fresti. Það var því kominn tími á gamla bílinn. Það sem skiptir þó meira máli er að nýi bíllinn er ákaflega vel heppnaður, bæði að utan og innan. Volvo hefur varið 11 milljörðum Bandaríkjadala í hönnun og þróun á síðustu þremur árum og frumsýning XC90 er fyrsta skrefið af mörgum, að sögn stjórnenda bílaframleiðandans í Gautaborg.
Hönnunin
XC90 er byggður á hönnun Volvo Concept Coupe sem frumsýndur var á bílasýningunni Frankfurt fyrir ári. Þar tókst sænska bílaframleiðandanum nokkuð sem venjulegur bílakaupandi veltir ekki endilega fyrir sér, að búa til bíl með sál.
Skírskotunin til sportbílsins P1800, sem framleiddur var á árunum 1961-1973 og Roger Moore gerði ódauðlegan í sjónvarpsþáttunum um Dýrlinginn, er helsta ástæðan. Þessu tekst svo hönnuðum Volvo að koma áfram í XC90, sem er mun sportlegri en forverinn.
Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um bílasýninguna í París. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.