*

Bílar 21. mars 2014

Volvo S60 í sportútfærslu

Volvo S60 R-Design er með 8 þrepa sjálfskiptingu og er það fyrsti bíllinn frá Volvo þessarar tegundar.

Brimborg frumsýnir á morgun, laugardag nýjan Volvo S60 R-Design með glænýrri D4 Drive-E vél frá sænska bílaframleiðandanum. Í þessari sport útfærslu er útlitið sérstaklega kraftmikið og rennilegt. Bíllinn hefur meðal annars breiðari framstuðara, sérstakan vindkljúf neðan á afturstuðara og sverari púststúta. Hliðarspeglar, gluggarammar og grill eru með mattri satínáferð.

Vélin skilar bílnum 181 hestafli og togið er 400 Nm. Með 8 þrepa sjálfskiptingu er bíllinn 7,4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. CO2 losunin er einungis 109 g/km og eyðslan aðeins 4,2 l/100 km í bönduðum akstri. Þetta er fyrsta vélin sem Volvo kynnir með 8 þrepa sjálfskiptingu. 

Bíllinn er jafnframt með sérstakri sportfjöðrun og kemur á 18“ álfelgum. Að innan er hann búinn sportinnréttingu, R-Design sportsætum, High Performance hljómtækum, leðurklæddu stýri með álrönd og R-Design merki, TFT digital mælaborði með bláum skífum, pedölum úr áli, sérstöku álklæddu stjórnborði og hurðarhlífum. 

Stikkorð: Volvo