*

Bílar 22. ágúst 2012

Volvo V40 með líknarbelg fyrir gangandi vegfarendur

Svíarnir hjá Volvo setja öryggið á oddinn í bílum sínum. Nýjasti bíllinn er stútfullur af tækninýjungum.

Þegar öryggisbúnað ber á góma er sænski bílaframleiðandinn Volvo venjulega ofarlega á baugi. Nýjasti öryggisbúnaðurinn er líknarbelgur fyrir gangandi vegfarendur sem verður kynntur í hinum nýja Volvo V40 sem sýndur verður hjá Brimborg í haust.

Nýi Volvo V40 bíllinn var afhjúpaður á Alþjóðlegu bílasýningunni í Genf í vor og er algjörlega um nýjan bíl að ræða sem leysir af hólmi Volvo S40 stallbakinn og V50 skutbílinn. V40 er hinsvegar fyrsti hlaðbakur Volvo sem ætlað er að keppa við vinsæla bíla í þessum flokki á borð við Audi A3 og BMW 1-línuna.

Volvo V40 er hins vegar engum líkur þegar kemur að öryggisbúnaði og líknarbelgur fyrir gangandi vegfarendur verður staðalbúnaður í bílnum en sá búnaður er fyrsti sinnar tegundar. Búnaðurinn er með skynjara í framstuðaranum sem nema snertingu bílsins við fótgangandi fólk og á svipstundu losnar efri hluti húddsins og líknarbelgurinn blæs upp undir honum með því að breiðast yfir þriðjungshluta framrúðunnar og neðri hluta A-gluggapóstanna.

Bíllinn er einnig með vegfarendaskynjara (Pedestrian Detection) en búnaðurinn nemur ef vegfarandi stígur til dæmis út á akbraut fyrir framan bílinn sé sýnt að ökumaður nái ekki að bregðast við í tæka tíð. Margskonar annar búnaður er fáanlegur í Volvo V40 eins og veglínuskynjari sem gerir ökumanni viðvart ef bíllinn fer yfir á rangan vegarhelming auk þess að geta lesið á umferðarskilti. Hann er útbúinn virkum háum-ljósum sem elta beygjur, bílastæðahjálparbúnaður sem leggur í stæði fyrir ökumanninn og skynjar jafnfram hvort bíll nálgist þegar bakkað/ekið er úr stæði.

Volvo V40 hefur tekið nýjustu upplýsingatæknin í sína þjónustu þar sem hægt er að stjórna lýsingu í innanrými, vera með upplýstan gírhnúð og þemastillingar á TFT-skjá í mælaborði eftir því í hvaða stillingu bíllinn er, Performance, Eco eða Elegance.

Stikkorð: Volvo  • Volvo V40