*

Menning & listir 4. desember 2012

Vonast til að fá 10 milljónir fyrir verk Gunnlaugs

Drómi býður upp í kringum þriðjung af listaverkasafni SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

„Ég vonast til að fá 10 milljónir fyrir verkið. Þetta er mótív sem kemur aldrei í sölu,“ segir uppboðshaldarinn Jóhann Ágúst Hansen, framkvæmdastjóri Gallerí Foldar, um sjómannamynd eftir Gunnlaug Scheving. Verkið er eitt um 140 verka sem Galleríið býður upp á sunnudag og mánudag úr listaverkasafni SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans. Þetta er um þriðjungur listaverkasafns fjármálafyrirtækjanna. Verkin eru í eigu Dróma, sem heldur utan um eignir fyrirtækjanna, og er það slitastjórnin sem stendur fyrir uppboðinu. Allt söluandvirðið rennur til þrotabús Dróma.

Tvö önnur verk eftir Gunnlaug verða til sölu á uppboðinu, þar á meðal Stykkishólmsmynd eftir hann, ásamt myndum eftir aðra meistara íslenskrar listasögu, bæði látna sem lifandi. Þar á meðal eru Skjaldmeyjarverk eftir Kjarval og nokkur fleiri verk eftir hann auk verka eftir Karl Kvaran, Snorra Arinbjarnar, Finn Jónsson, Braga Ásgeirsson, Karólínu Lárusdóttur Eirík Smith, Pétur Gaut og Daða Guðbjörnsson. Og eru þá fáeinir listamenn nefndir. 

Jóhann Ágúst segir þetta fyrsta skiptið sem boðið er upp listaverkasafn á sérstöku uppboði. Það þekkist hjá uppboðshúsum á hinum Norðurlöndunum og víðar en ekki hér.

Gunnlaugur sjaldséður á uppboðum

Þá segir Jóhann Ágúst afar sjaldgæft að sjómannamyndir Gunnlaugs komi á markaðinn. Síðast sá hann eina eftir Gunnlaug á uppboði árið 2005 og fór hún á sjö milljónir króna.

Hann segir erfitt að meta listaverkasafnið allt en telur verðmæti þess nema einhverjum tugum milljóna króna. 

„Í flestum söfnum eru það 10 til 20% verka sem halda uppi verðmæti þeirra. Hér er það verk Gunnlaugs sem er langdýrast,“ segir Jóhann Ágúst. Sem fyrr segir vonast hann til þess að fá 10 milljónir króna fyrir stóra verkið eftir Gunnlaug. Gera má ráð fyrir að minnstu verkin á uppboðinu kosti á milli 20 til 30 þúsund króna. 

Hér má sjá myndina eftir Gunnlaug Scheving, sem búist er við að geti farið á 10 milljónir króna á uppboðinu hjá Gallerí Fold um næstu helgi.