*

Veiði 29. júní 2015

Vopnabúr veiðimanna: Jakob Bjarnar

Við fengum fimm veiðimenn til að opna vopnabúrið. Jakob Bjarnar er mikill áhugamaður um stangveiði.

Trausti Hafliðason

Við fengum fimm veiðimenn til að opna vopnabúrið. Við báðum þá að nefna sína uppáhalds laxveiðistöng, sem og veiðihjól og línu. Þá svara þeir því einnig hvaða þrjár flugur eru í uppáhaldi.

Jakob Bjarnar Grétarsson er landskunnur fjölmiðlamaður. Færri vita kannski að hann er mikill áhugamaður um stangaveiði. Eins og myndin gefur til kynna er hann ekki síður mikill skotveiðiáhugamaður.

  1. Stöng: Sage Z-Axis, 9,6 fet fyrir línu númer 6
  2. Veiðihjól: G-Loomis
  3. Lína: Airflo Delta Spey II
  4. Þrjár laxaflugur: Þýsk snælda – túba, gullslegin tvíkrækja númer 6; Sunray Shadow og Rauður Francis.

„Ég á margar veiðistangir en valdi þessa, þó hún sé í það minnsta fyrir laxinn, vegna þess hversu hröð hún er og skemmtileg. Og súrrealísk sagan af því hvernig það kom til að ég eignaðist hana. Ég var að kjafta við Jón Mýrdal veiðifélaga minn í síma, sem var að segja mér af einhverri Thomas & Thomas-stöng sem hann var að eignast. Ég hummaði og ha-aði, og var eitthvað að fletta á netinu; googlaði: the best fly rod. Og þá var þessi týpa af Sage nýkomin fram á sjónarsviðið og menn héldu ekki vatni.

Ég er enginn spesíalisti um flugustangir og veit ekki hvað greip mig, sennilega öfund; því allt í einu stóð lygin uppúr mér. Óviðráðanleg. Las upp af netinu einhverja lofsamlega dóma um þetta undur og gerði að mínum. Og hélt því fram eins og ekkert væri að þessi Thomas & Thomas-stöng væri nú örugglega ágæt fyrir sinn hatt en, það vildi svo skemmtilega til að ég hafi verið að fá mér stöng, Z-Axis... Nei?! sagði Jón furðulostinn, og þegar ég heyrði tóninn í röddu hans, þá lá fyrir að ekki var hægt að bakka út úr þessu. Konan mín þáverandi er flugfreyja, var stödd úti í Bandaríkjunum – ég hafði samband við hana í ofboði, pantaði stöngina á Cabellas, lét senda hana á hótelið þar sem konan var og hún kom heim með stöngina góðu – í tæka tíð; næst þegar ég hitti Jón gat ég sýnt honum Z-Axis sem ég var búinn að fá mér.“

Skyggnst er í vopnabúr fleiri veiðimanna í Veiði, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.