*

Sport & peningar 1. febrúar 2013

Vörðu 120 milljónum punda í leikmannakaup

Félagaskiptaglugginn í ensku úrvalsdeildinni lokaði í gær. QPR, Liverpool og Newcastle vörðu mestu fjármagni.

Liðin í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu vörðu um 120 milljónum Sterlingspunda í leikmannakaup í félagsskiptaglugganum nú í janúar. Sem kunnugt er iðulega opnað fyrir félagaskipti í deildinni í janúar.

Samkvæmt tölum frá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte í Bretlandi vörðu félögin um 35 milljónum punda í leikmannakaup á lokadegi félagaskiptagluggans, þ.e. í gær. Queens Park Rangers, Liverpool og Newcastle eru þau lið sem vörðu mestu fjármagni skv. úttekt Deloitte eða rúmlega helmings þess sem varið var í leikmannakaup.

Í janúar í fyrra vöru félögin um 60 milljón punda í leikmannakaup þannig að veltan hefur tvöfaldast á milli ára. Þess ber þó að geta að í janúar 2011 vörðu félögin um 225 milljónum punda sem þá var nýtt met í janúarglugganum.

Í frétt BBC um málið er haft eftir starfsmanni Deloitte að félögin hafi haldið að sér höndum í leikmannakaupum undanfarin misseri, í ljósi nýrra reglna evrópska knattspyrnusambandsins (EUFA) sem í stuttu máli fela það í sér að heimildir félaganna til leikmannakaupa eru takmarkaðar við tekjuflæði félaganna.