*

Veiði 31. mars 2017

Vötn og ár lifna við

Stangaveiðitímabilið hefst formlega á morgun þegar veiðimenn fara að eltast við silung í vötnum og ám.

Trausti Hafliðason

Á meðal þeirra vatna sem opna 1. apríl eru Vífilsstaðavatn, Hraunsfjörður á Snæfellsnesi, vatnasvæðið í Svínadal, Syðridalsvatn við Bolungarvík og Þveit við Hornafjörð.  Eftir því sem líður á mánuðinn hefst veiði í hverju vatninu á fætur öðru. Þann 15. apríl hefst veiði í Kleifarvatni og þann 20. apríl í Þingvallavatni og Elliðavatni, svo eitthvað sé nefnt. Þess ber að geta að þar til 31. maí er einungis heimilt að veiða á flugu í Þingvallavatni og er veiðimönnum skylt að sleppa öllum urriða. Öll þessi vötn sem hér eru nefnd eru í Veiðikortinu, sem margir veiðimenn kannast við.

Veiði hefst í fjölda áa

Veiði hefst í fjölda sjóbirtingsáa núna í apríl. Árnar sem gjarnan fá mestu athyglina á þessum árstíma eru þær sem eru í Vestur-Skaftafellssýslu. Má þar nefna ár eins og Tungufljót, Tungulæk, Grenlæk, Geirlandsá, Eldvatn, Vatnamót og Steinsmýrarvötn. Í apríl hefst líka veiði í fjölmörgum öðrum ám víða um land eins Minnivallalæk í Landsveit og Varmá, sem rennur í gegnum Hveragerði. Þar í grennd hefst líka í veiði í Soginu og Brúará. Þá er egnt fyrir sjóbirtingi í Grímsá í Borgarfirði í apríl, Húseyjarkvísl í Skagafirði, Litluá í Kelduhverfi og Brunná í Öxarfirði svo einhverjar ár séu nefndar.

Stikkorð: lax  • sjóbirtingur  • silungur  • Stangaveiði  • vatnaveiði