*

Hitt og þetta 17. júlí 2006

WiseFish-hugbúnaðurinn verðlaunaður

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið TM Software│Maritech hlaut í sl. viku verðlaun sem samstarfsaðili ársins í vöruþróun hjá Microsoft Business Solutions (MBS Global ISV partner of the year). Verðlaunin eru veitt fyrir þróun á WiseFish-hugbúnaðarlausnum sem þróaðar eru fyrir Dynamics NAV og notaðar í sjávarútvegi um allan heim. Tilkynnt var um verðlaunin á árlegri heimsráðstefnu Microsoft í Boston.

TM Software|Maritech var valið úr hópi þúsunda fyrirtækja sem veita þjónustu tengda Microsoft Business Solutions en einungis 23 fyrirtæki voru verðlaunuð. Við val á fyrirtæki ársins í hverjum flokki var litið til lykilþátta eins og árangurs í sölu, sérfræðiþekkingar á vörum og þjónustu Microsoft, ánægju viðskiptavina og álits samstarfsaðila. Hið nána samstarf sem TM Software|Maritech á við Microsoft Business Solutions byggist á áreiðanlegum vinnubrögðum og umfangsmikilli tækniþekkingu starfsmanna og góðu samstarfi við viðskiptavini félagsins.

Friðrik Sigurðsson, forstjóri TM Software, Jón R. Kristjánsson, framkvæmdastjóri TM Software|Maritech, og Jón Heiðar Pálsson, sölu- og markaðsstjóri TM Software|Maritech, veittu verðlaununum viðtöku á hátíðardagskrá Microsoft. ?Þetta er mikil viðurkenning á starfi okkar við þróun og markaðssetningu WiseFish-lausnanna. Verðlaunin styrkja einnig áframhaldandi markaðssetningu á hugbúnaðarlausnum okkar erlendis,? segir Jón R. Kristjánsson, framkvæmdastjóri TM Software|Maritech í tilkynningu félagsins.

TM Software|Maritech hefur unnið að þróun WiseFish-upplýsingakerfisins í 15 ár og innleitt það hjá ríflega 800 viðskiptavinum í 12 löndum. WiseFish er hannað með þarfir sjávarútvegs og fiskeldis í huga og nær til allrar virðiskeðju sjávarútvegs og fiskeldis, ýmist með samþættingu viðskiptalausna eða innleiðingu lausna sem ná til tiltekinna hluta virðiskeðjunnar. WiseFish gerir rekjanleika vöru einnig mögulegan en þá er ferill vöru frá veiðum rakinn alla leið til neytandans.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem TM Software│Maritech er heiðrað með verðlaunum frá Microsoft. Árið 2004 hlaut fyrirtækið verðlaun fyrir WiseFish á heimsráðstefnu Microsoft í flokknum ?Framúrskarandi lausn sem þróuð er fyrir Microsoft Business Solutions? og árið 2005 hin eftirsóttu verðlaun ?Navision Excellence Award?.