*

Sport & peningar 20. júní 2011

Wolves besta liðið - miðað við laun

Hvert stig sem Chelsea fékk tímabilið 2009/2010 kostaði yfir tvær milljónir punda í launum, samanborið við 789 þúsund hjá Wolves.

Magnús Halldórsson

 Wolverhampton Wanderers, eða Wolves, er kannski ekki besta fótboltalið ensku úrvalsdeildarinnar en rekstur þess var að mörgu leyti til fyrirmyndar í fyrra, ef marka má úttekt sem íþróttasvið Deloitte í Bretlandi vann um rekstur félaganna í ensku úrvalsdeildinni. Skýrslan er unnin upp úr endurskoðunum ársreikningum félaganna eins og þeir voru tímabilið 2009/2010 og hluta af nýafstöðnu tímabili, 2010/2011. Launakostnaður Wolves það tímabil var 29,8 milljónir punda, 5,4 milljarðar króna, en félagið endaði þá í 15. sæti, átta stigum fyrir ofan fallsvæðið. Sé mið tekið af launakostnaði og árangri, þá stóð Wolves framar öllum öðrum.

Burnley lægstir

Launakostnaður Wolves var ekki sá lægsti tímabilið 2009/2010. Burnley var þá með lægsta launakostnaðinn, eða um 22 milljónir punda. Það dugði Burnley ekki til þess að halda sér í deildinni. En hversu há laun þarf til þess að halda sér í deildinni? Það er erfitt að segja. Um 37 milljónir punda dugðu Birmingham ekki á nýafstöðnu tímabili og yfir 50 milljóna punda launakostnaður West Ham ekki heldur. Líklega kemur ekkert í staðinn fyrir góð gildi í keppnisíþróttum, baráttu, samstöðu og hæfileika. Nokkurn veginn í réttum hlutföllum.

Tottenham og Liverpool

Það félag sem náði verstum árangri miðað við launakostnað 2009/2010 var Liverpool. Árlegur launakostnaður samkvæmt Deloitte var 121 milljón punda. Kostnaður Arsenal var á sama tíma 111 milljónir punda. Aston Villa kom næst á eftir Liverpool með 80 milljóna punda launakostnað. Það dugði félaginu skammt. Tottenham náði hins vegar besta árangri í toppbaráttunni miðað við launakostnað. Hann var 67 milljónir punda en félagið náði sæti í Meistaradeild Evrópu á sama tímabili.

Man. Utd, Man. City og Chelsea

Þrjú félög eru í algjörum sérflokki þegar kemur að launakostnaði. Það eru Manchester United, Manchester City og Chelsea. Chelsea var með langsamlega hæsta launakostnaðinn eða nálægt 200 milljónir punda þegar allt er tekið. Man. City kom þar á eftir með á milli 130 og 140 milljónir punda, örlítið meira en nágranninn úr Manchester borg.

Greinin birtist í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins.