*

Menning & listir 21. júní 2014

Yfir og undir

Breski listamaðurinn Peter Liversidge ræddi við Viðskiptablaðið um nýja sýningu sína í gallerí i8.

Kári Finnsson

Breski listamaðurinn Peter Liversidge opnaði nýverið sýninguna C-O-N-T-I-N-U-A-T-I-O-N í gallerí i8 en sýningin er unnin upp úr 24 tillögum að verkum sem ýmist verða að veruleika á sýningunni eða ekki. Hér er annar hluti af þremur í viðtali Viðskiptablaðsins við listamanninn. Hér má sjá fyrsta hluta viðtalsins.

Það er áhugavert að þú segir að reglurnar hafa þennan eiginleika að þær geta staðsett þig á ákveðnu svæði. Sumar þessar tillögur verða að fullunnum verkum innan veggja gallerísins eða utan þeirra á meðan aðrar þeirra verða það ekki.

Þetta minnir mig á þegar ég tók þátt í samstarfsverkefni hjá Arkitektafélaginu í London fyrir svona þremur til fjórum árum síðan. Þar tóku þátt alls konar mismunandi hópar sem höfðu innanborðs listamenn, arkitekta og vísindamenn. Ég var í hópi með frábærum arkitekt og stórkostlegum vísindamanni sem sérhæfir sig í slembikenningum (e. random theory), andefni (e. dark matter) og í efnislegri tilvist hins óþekkta. Hann heitir Roberto Trotta, er prófesor hjá Imperial College og er alveg fáránlega ungur - svona í kringum 35 ára aldurinn. Hann stórklár og er mjög góður í að útskýra flókin fyrirbæri með mjög skýrum hætti.

Við vorum að tala um hluti þegar þeir eru komnir niður á frumeindaskala. Hugmyndin um það t.d. að við erum að drekka þennan kaffibolla. Það er jafn stórt hlutfall af andefni í kaffibollanum og í kaffinu sjálfu. Andefni samsvarar í kringum 70% af alheiminum. 70% af þessu teppi er andefni og það sama gildir um bollan, regluverkið mitt eða sjónvarpið. Þetta þótti mér alveg ótrúlegt. Kannski hafa listamenn alltaf tilhneigingu til að tengja allt við verkin sín eða það sem þeir þekkja, en þetta fékk mig til að hugsa um kjarnann á bak við að skrifa tillögur.

Þetta er tengt hugmyndinni um að það eru sömu grunneiginleikar sem gera þessa flösku sem einnig gera ljósrofann. Það þótti mér alveg stórkostlegt vegna þess að við fáumst oftast við það sem við þekkjum, getum snert og séð. Hlutir gefa ekki frá sér ljós, þeir endurkasta ljósi. Þannig að ástæðan fyrir því að þú veist að þetta er leður og að þetta er gler er sú að þessir hlutir endurkasta ljósi með frábrugðnum hætti. Bara vegna þess að hlutur er efnislega staðsettur á ákveðnum stað gerir hann ekki raunverulegri en þegar hann er ekki efnislega staðsettur þar. Það þýðir bara að honum hefur verið komið fyrir með einhverjum tilteknum hætti sem þú hefur ímyndað þér að sé viðeigandi.

Með sama hætti er auðvitað til staðar mín útgáfa af verkunum, eins og OVER/UNDER sem er neonverk. Ég lagði til verkið og það er vissulega mitt verk en ef einhver annað hefði unnið það þá hefði það auðveldlega getað verið allt öðruvísi. Einhver hefði getað sagt að það ætti að vera teikning eða málverk eða gjörningur eða bara að það ætti ekki að vera til yfir höfuð. Þetta snýst allt um mismunandi möguleika á túlkun. Hvernig hann í sjálfu sér verður næstum því efnislegur hluti af verkinu.

Tillögurnar eru að mörgu leyti þess eðlis að ef þú tekur virkan þátt í verkunum þá getur þú skapað þau í sínu óendanlega rými innan þíns ímyndunarafls, jafnvel þótt þau séu strangt til tekið ekki til. Það frábæra við reglurnar t.d. er að þær eru til og munu halda áfram að vera til í kringum Ísland. Þegar ég set reglurnar við hliðina á t.d. umfjöllun um HM í fótbolta í einhverju dagblaði, þá gætir þú slysast til að lesa eina reglu eða allar reglurnar. Það er þessi gagnvirki þáttur sem mér finnst svo áhugaverður - þegar maður er að trufla aðeins gefna röðun hlutanna. Þá meina ég reyndar ekki að þær eigi að vera truflandi.

Vegurinn sem liggur frá tillögu og til fullunnins verks (í hvaða skilningi þess hugtaks sem er) er alltaf háður mikilli óvissu. Jafnvel þegar þú leggur til að byggja hús, sem flestum finnst frekar sjálfsagt ferli, þá er það ferli háð töluverðri óvissu. Það sem þú virðist vera að gera er að leyfa þessari óvissu að eiga sér stað.

Það hljómar svolítið laissez faire, að leyfa hlutunum að gerast. Þau snúast að mjög miklu leyti um að taka hinu óþekkta opnum örmum og að leyfa innsæishlutanum að standa jafnfætis öllu öðru. Stundum virkar það líka ekki, stundum bregst þetta algjörlega. Ég kveið t.d. kórverkinu mjög mikið.

I propose to write a choral piece for a choir of 30 adults. The piece will be performed at the sea’s edge in Reykjavik harbour.

Ég hef enga hæfileika á sviði tónlistar. Verkið var unnið þannig að ég sönglaði lagstúf í Iphone-inn minn. Ég hafði unnið smá rannsókn áður en ekki mikla vegna þess að ég vildi hafa verkið svolítið ósjálfrátt. Svolítið eins og þegar maður raular lag dags daglega - þú veist ekki alveg af hverju þú ert að gera það, en það er ekki vegna þess að þú ert ekki að hugsa um það. Þannig að verkið þróaðist frá því að vera lélegur einsöngur í síma yfir í lélegt kórverk (hlær). Þetta atvikaðist síðan þannig að Benni [Hemm Hemm] sagðist geta hjálpað mér að smala saman kór. Þegar það kom síðan að því að æfa verkið, þar sem fólk mætti í raun og veru og ég stóð þarna bara og spilaði eitthvað sem ég hafði raulað í símann minn. Ég hugsaði bara: þetta getur ekki verið að gerast. Þetta eru nefnilega frábærir söngvarar.

Ég fann fyrir því hversu ótrúlega berskjaldaður ég var þegar við loksins fluttum verkið. Það var eitthvað magnað við það hvernig allir söngvararnir komu saman sem hópur. Við æfðum bara saman í þrjá tíma allt í allt en mér leið samt eins og að þau væru öll vinir. Ef við hugsum aðeins aftur um hverfulleika tillagnanna og efnisleika verkanna. Þetta var vissulega eins konar gjörningur en það sem mér fannst áhugavert við að gera verk sem var eins konar flutningur á einhverju var að ég vildi ekki láta það snúast um mig. Ég vildi að það snerist um áhorfendur og þá sem fluttu verkið. Síðan kemur að þessu sem er þarna í miðjunni, sem mér þótti áhugavert og ég vildi alls ekki trufla. Þú manst kannski að það var róni þarna sem var að gera sig líklegan til að skemma verkið. Ég vissi ekki hvað myndi gerast en ég vissi að ég gæti ekki leyft honum að skemma verkið. Þannig að ég tók bara þéttingsfast um handlegginn á honum og leiddi hann burt.

Jafnvel þótt verkin eru hvorki árangursrík né misheppnuð, þá hlýtur þú að finna fyrir því að einhver þeirra séu ákveðið afrek og önnur eins konar vonbrigði?

Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá finn ég ekki fyrir slíku. Ég finn ekki fyrir því að eitthvað hafi farið úrskeiðis. Bara tilhugsunin um það að nú erum við hér að tala saman á Íslandi í galleríi þar sem er búið að setja upp sýningu eftir mig. Ef einhver hefði sagt mér að ég væri að gera þetta núna fyrir nokkrum árum síðan þá hefði ég bara hugsað: í alvöru?

Það eru margar mismunandi leiðir til að mæla árangur. Eins og t.d. hversu margir mæta á sýninguna eða hversu margir kaupa verkin. En það gerir efnislegu og óefnislegu tillögurnar ekkert árangursríkari ef þær seljast. Það gæti hljómað svolítið einkennilega, en þetta snýst eiginlega bara allt um verkin - að þau séu þarna, og það er það sem skiptir máli.

Sýningin C-O-N-T-I-N-U-A-T-I-O-N eftir Peter Liversidge stendur til 9. ágúst í i8 gallerí.