*

Hitt og þetta 25. nóvember 2013

Yfirgefin háhýsi í Bandaríkjunum

Þau eru dapurleg háhýsin sem hafa staðið tóm árum saman í smáborgum Bandaríkjanna.

Háhýsi hafa löngum þótt merki um velmegun. Oft á tíðum rísa þau rétt fyrir efnahagsþrengingar eftir mikinn uppgang. Hvergi er þetta jafn augljóst og í smáborgum víðsvegar um Bandaríkin.

Í grein á Gizmodo er fjallað um fimm háhýsi í Bandaríkjunum sem standa tóm. Sum hafa staðið tóm í mörg ár á meðan önnur eru nýlega yfirgefin.

The Bank of America Tower í Providence, Rhode Island. Húsið var byggt árið 1927 í Art Deco stíl og er hæsta bygging Rhode Island. Húsið var fyrirmynd The Daily Planet turnsins í Superman myndunum. Í dag stendur háhýsið tómt.

One Seneca Tower í Buffalo, New York. Turninn er einn af hæstu byggingunum í Buffalo og er 38 hæðir. Nær allir leigjendurnir yfirgáfu bygginguna á nokkrum mánuðum.

Ramada Plaza í Macon, Georgia. Gamla Ramada Plaza hótelið hefur staðið autt síðan 2011. Húsið er á 16 hæðum og hafa eigendaskipti verið tíð síðustu árin. Í dag er þar aðeins húsvörður sem gætir hússins. Elvis Presley gisti einu sinni á hótelinu.

Riverpark II í San Jose, Kalifornía. Riverpark II er aðeins fjögurra ára en enginn hefur leigt sér aðstöðu í húsinu frá því það var byggt. Þegar húsið var byggt voru horfur á því að leigjendum mundi fjölga á svæðinu. Í þessum mánuði voru verktakarnir lýstir gjaldþrota og verður húsið líklega selt á næstunni.

Roberts Tower í St. Louis, Missouri. Roberts turninn í St. Louis hefur fengið viðurnefnið „zombie tower” eða „draugaturninn". Hann er 22 hæðir og var byggður árið 2009 en var aldrei kláraður að innan. Einhverjar sögusagnir eru um að honum verði breytt í fjölbýlishús innan tíðar.

 

 

 

Stikkorð: Bandaríkin  • kreppa  • Háhýsi  • Bandaríkin