*

Hitt og þetta 28. maí 2013

Yfirgefnar hallir víðs vegar um heiminn

Eldar, gripdeildir og styrjaldir hafa leikið grátt hallirnar sem komast á lista yfir áhugaverðustu yfirgefnu hallir í heimi.

Hér má sjá myndir af yfirgefnum höllum um allan heim sem hefur ekki verið haldið við í áratugi.

Hallirnar eru margar hverjar algjört listaverk og ef litið er framhjá rykinu og rústunum má sjá gamla tímann skína í gegn. Skoðum sögu nokkurra yfirgefnu hallanna: 

Pidhirtsi kastali, Pidhirtsi, Úkraína. 

Kastalinn var byggður á árunum 1635 til 1640 og var eitt sinn ríkulega innréttaður. Í fyrri heimstyrjöldinni rústuðu rússneskir hermenn hins vegar höllinni að innan. Síðar flutti prinsinn Roman Sanguszko inn en árið 1939 tók hann allt verðmætt úr höllinni og flutti til Brasilíu. Eftir síðari heimstyrjöldina breyttu þáverandi yfirvöld í Sovétríkjunum höllinni í berklahæli. Það var svo árið 1956 sem kviknaði í og þar með eyðilagðist það litla innbú sem eftir var endanlega. Í dag er unnið að endurbótum en breytingarnar hingað til eru litlar. 

Halcyon Hall, Bennett College, Millbrook, New York.

Halcyon Hall var upphaflega byggt sem lúxushótel 1890 en lokaði 1901. Nokkrum árum síðar var stúlknaskólinn „Bennett School for Girls“ stofnaður í höllinni. Starfsemi skólans var hætt þegar hann varð gjaldþrota árið 1978. 

Bannerman kastali, Bannerman eyja, New York. 

Francis Bannerman, skoskur innflytjandi og hergagnaframleiðandi, keypti eyju árið 1900 og byggði þar kastala. Þegar Bannerman dó árið 1918 sprungu 200 tonn af skotum og öðrum eldfimum efnum og eyðilagðist hluti kastalans. Árið 1969 eyðilagði eldur þakið og gólfin í kastalanum og hefur hann staðið auður síðan. Enginn býr á eyjunni og árið 2009 hrundi einn þriðji af kastalanum.