*

Menning & listir 5. október 2016

Ylur heima í stofu

Fanney og Arnar eru par sem búa á Selfossi sem framleiða og hanna prjónuð barnaföt undir merkinu Ylur.

Eydís Eyland

Fanney og Arnar eru par sem búa á Selfossi ásamt tveimur börnum þeirra. Þau framleiða og hanna prjónuð barnaföt undir merkinu Ylur og fer framleiðslan öll í stofunni heima hjá þeim.

Ylur hefur verið að gera það gott með fallegri hönnun á prjónavörum á yngstu kynslóðina síðustu misseri. Verkefnið fór almennilega í gang 2014 ári eftir að Fanney og Arnar eignuðust sitt annað barn.

Hvaðan kemur hugmyndin að því að gera barnaföt?

Þetta ævintýri byrjaði þegar stelpan okkar var lítil. Ég er persónulega ekkert hrifin af alltof flóknum hugmyndum. Ég vil hafa hlutina einfalda og stílhreina og mig langaði að prjóna á dóttur mína sjálf, þannig að ég byrjaði að prjóna 2013 þegar hún fæðist. Ég reyndi að prjóna eftir uppskrift en það hentaði mér ekki alveg því mig langaði að hanna flíkina sjálf og fór ég að gera það. Ég setti svo í framhaldinu myndir á Facebook af því sem ég hafði verið að gera og byrjaði ég svo að selja prjónavörurnar ári seinna 2014 undir merkinu Ylur. Ég seldi fyrst í gegnum mitt persónulega Facebook því þar hafði ég sett myndir af því sem ég hafði verið að gera og fékk þar fyrirspurn frá verslun og fólki sem vildi fá að kaupa af mér. Í framhaldi af því gerði ég svo Facebook-síðu fyrir Yl og fór að selja þar.

Ég byrjaði einnig að selja vöruna mína í Kron Kron í Fákaseli en nú hefur versluninni lokað. Mig langaði alltaf að læra fatahönnun en gerði það aldrei, ég valdi öruggari starfsleið og er því með BA í félagsráðgjöf en ég er líklega ekkert að fara að vinna við það þar sem Ylur gerðist einhvern veginn fyrir mig þarna á leiðinni,“ segir Fanney.

Skiptum með okkur verkum

Þið vinnið að Yl saman, skiptið þið með ykkur verkum?

„Já, við skiptum með okkur verkum þar sem við erum ekkert menntuð sem hönnuðir þannig að við erum bæði miklir nýgræðingar í þessu ferli. Arnar maðurinn minn er að klára ensku í Háskóla Íslands og ég með félagsráðgjöfina. 

Arnar prjónar í prjónavél og ég prjóna alla kanta, sauma saman og festi tölur. Ég sé um alla hönnun, en við útfærum allt saman. Arnar lærði á prjónavél í nóvember og hann hafði aldrei snert svona vél áður. Ég var alltaf ein að handprjónað allt þar til við fengum vélina. Ég fékk mikla vöðvabólgu við að handprjóna orðið peysu á dag og gat það orðið ekkert mikið lengur en okkur langaði að halda áfram með þetta verkefni þannig að við ákváðum að fá okkur vél,“ segir Fanney. „Arnar sér svo meira um viðskiptahliðina og sölu á vörunni en ég um samfélagsmiðlana, instagram og Facebook.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Eftir Vinnu sem áskrifendur Viðskiptablaðsins geta nálgast með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: hönnun  • Ylur  • prjónafyrirtæki