*

Veiði 13. júlí 2017

Zelda er að gera allt vitlaust

Flugan Zelda var fyrst notuð í Norðurá fyrir 18 árum en það var ekki fyrr en nú í vor sem leyndarmálið var upplýst.

Trausti Hafliðason

Kjartan Antonsson, veiðimaður og leiðsögumaður, upplýsti fyrir skömmu um leynivopnið Zeldu. Zelda er fluga sem hnýtt er á þríkrækju. Búkurinn er úr svartur og rassinn er í ýmsum litum en oftast grænn eða rauður. Aftan úr búknum standa stilkar, svipað og á Frances en það sem gerir þessa laxaflugu sérstaka er ekki síst að hún er með kúluhaus. Yfirleitt eru kúluhausar eingöngu á silungaflugum. Þessi sérstaða flugunnar þýðir að mjög tímafrekt er að hnýta hana því bora þarf hvern einasta kúluhaus út svo hægt sé að koma honum á þríkrækjuna. Flugan hnýtt í ýmsum stærðum — allt niður í krókastærð 18.

„Eftir að ég opinberaði leyndarmálið hef ég fengið mikil viðbrögð frá veiðimönnum," segir Kjartan. „Síminn hefur varla stoppað og skilaboðunum rignir inn á Facebook."

Fyrstu prófuð í Norðurá 1999

Spurður hvernig flugan hafi orðið til svarar Kjartan: „Ég held að það sé rétt munað hjá mér að ég hafi fyrst veitt á þessa flugu árið 1999. Þá hafði ég gengið með hana í höfðinu í tvö ár en ég nennti aldrei að hnýta hana því ég vissi að það væri töluvert vesen.
Hugmyndin kom þegar ég var að veiða í Bíldsfellinu. Þá voru litlu púpurnar með kúluhaus að ryðja sér til rúms og veiðimenn voru að nota þær í andstreymisveiði. Ég var sjálfur að gera þetta til þess að egna fyrir bleikju en það var alltaf einn og einn lax að taka. Þá fór þessi hugmynd að gerjast í höfðinu mér og ég fór að hugsa hvernig ég gæti þróað þessar púpur í flotta laxaflugu."

Þegar Kjartan lét loksins verða að því að hnýta fluguna fór hann með nokkrar í Norðurá. Þetta var í júnímánuði 1999. „Þegar ég setti ég í tíu laxa og landaði sex þá vissi ég að ég væri með eitthvað í höndunum."

Kjartan hafði þetta sem sitt leyndarmál í mörg ár. „Þó svo hafi verið þá gaukaði ég þessari flugu að einum og einum íslenskum veiðimanni og tveimur leiðsögumönnum, sem ég þekki vel. Skilyrðið fyrir því að þeir fengu Zelduna var að þeir myndu halda henni fyrir sig og ekki sýna nokkrum manni fluguna og alls ekki leyfa einhverjum að taka mynd af henni.

Í fyrra komu blaðamenn frá tímaritinu Salmon and Trout upp í kjós og góðu vinur minn, leiðsögumaður, var með þeim. Þeir veiddu hvern fiskinn á fætur öðrum á þessa flugu. Eðlilega urðu þeir mjög spenntir. Þeir náðu að smella mynd af flugunni og hugðust segja frá henni í tímaritinu. Vinur minn stoppaði það snarlega af og tók algjörlega fyrir það að þessi fluga myndi birtast í blaðinu og fékk það í gegn."

Fulling Mill hafði samband

Kjartan segir að þegar að fulltrúi frá fyrirtækinu Fulling Mill hafi haft samband fyrir nokkrum mánuðum þá hafi eiginlega ekki verið hægt að halda þessu leyndu lengur. Fulling Mill hefur selt og hnýtt flugur í að vera 100 ár.

„Þegar að Fulling Mill hafði samband þá vissi ég að þetta væri búið — ég gæti ekki haldið þessu leyndu lengur. Ég sendi þeim uppskrift og myndband þar sem ég sýni hvernig flugan er hnýtt og nú er fyrirtækið farið að framleiða Zeldu í stórum stíl."

Kjartan segir að þó Zelda sé í dag til í ýmsum útfærslum þá sé upphaflega flugan með grænum rassi.

„Þessi fluga er búinn að gera alveg ótrúlega hluti í gegnum árin. Ég hef landað löxum á allar útfærslurnar en ég nota þessa grænu mest. Það skemmtilega við þessa flugu er að sjóbirtingurinn tekur hana alveg jafnt á við laxinn. Svo hef ég líka heyrt af mönnum sem hafa veitt urriða á hana en ég veit ekki enn hvort bleikjan tekur Zeldu."

Kjartan segist aldrei setja Zeldu fyrst undir. "Það hefur eiginlega verið regla hjá mér að setja hana undir í lokin eða ef ekkert er að gerast og oftar en ekki hef ég fengið töku eða lax. Zelda er auðvitað ekki óbrigðul en hún er samt alveg mögnuð þessi fluga."

„The Legend of Zelda"

Eins og stundum er með flugur þá eiga nöfnin sér einhverja sögu. Kjartan segir að á þeim árum sem hann hafi byrjað að hnýta fluguna hafi synir hans mikið verið að spila tölvuleikinn „The Legend of Zelda". 

„Á þessum tíma, um vorið 1999, fengum við okkur fyrsta þýska pointer-inn. Það var tík og strákarnir vildu endilega nefna hana Zelda. Þegar ég síðan loksins lét verða af því að hnýta fluguna ákvað ég að nefna hana eftir tíkinni. Þessa vegna heitir þessi fluga Zelda."

Greinin birtist í sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: stangveiði  • laxveiði  • Zelda