Adrian Keating hefur verið ráðinn yfirmaður sölu- og markaðsmála (e. Executive Director Sales- and Marketing) hjá Play og bætist við lykilstjórendahóp flugfélagsins, að því er segir í fréttatilkynningu. Hann hóf störf þann 1. mars.

„Adrian mun vinna mjög náið með framkvæmdastjórn Play og aðstoða við uppbyggingu á sölu- og markaðsstarfi félagsins.“

Adrian er með yfir 20 ára reynslu úr fluggeiranum. Hann hóf feril sinn hjá British Airways árið 1999 en hefur síðan þá starfað hjá easy-Jet, Etihad, Malaysia Airlines og Air Transat.

Síðast starfaði Adrian hjá norska flugfélaginu Norse Atlantic sem forstöðumaður sölu, markaðs- og dreifingarmála. Þar áður gegndi hann lykilstjórnendastöðum hjá Air Transat og Malaysia Airlines. Á undan því var Adrian sölustjóri hjá easy-Jet.

„Að ganga til liðs við Play á sama tíma og félagið fagnar því að fljúga með milljónasta farþegann markar upphafið að spennandi kafla á ferlinum mínum. Ég er mjög upp með mér að hafa fengið tækifæri til að leiða öflugan hóp sölu- og markaðssviðs Play og hlakka til þess að leggja mitt af mörkum og verða partur af áframhaldandi vexti félagsins. Þá hlakka ég til þess að móta framtíðarsýn í sölu- og markaðsstarfi félagsins,“ segir Adrian Keating.

„Adrian kemur til Play með yfir 20 ára reynslu úr alþjóðlega fluggeiranum og ég býð hann hjartanlega velkominn í frábæra teymið mitt. Alþjóðleg reynsla Adrian mun klárlega nýtast Play vel og þá sérstaklega við að kynna Play enn betur á erlendri grundu. Það er mikil eftirvænting fyrir komandi tímum hér hjá Play með þessum liðsauka,“ segir Sonja Arnórsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Play.