„Ég er mjög ánægð að hafa gengið til liðs við Kerecis. Ég hef fylgst með fyrirtækinu frá stofnun þess og fæ nú tækifæri til að taka þátt í þessari frábæru starfsemi," segir Hrefna Briem, nýr forstöðumaður breytingastjórnunar og skrifstofu forstjóra Kerecis.

Hún segir hlutverk sitt hjá fyrirtækinu vera eins fjölbreytt og hugsast getur. „Ég kem að mótun fyrirtækisins í nútíð um leið og við búum vel um hnútana með framtíðaráherslur félagsins í huga. Vörur félagsins eru einstakar og Kerecis er með sanni frumkvöðull á sínu sviði," en fyrirtækið hefur þróað leið sem byggir á notkun fiskiroðs og fitusýrum í lækningartilgangi sem getur umbreytt batahorfum þeirra sem glíma við þrálát sár.

Hrefna hefur á undanförnum árum verið forstöðumaður viðskipta- og hagfræðináms við Háskólann í Reykjavík. Þá hefur hún samhliða hlutverki sínu innan háskólans sinnt hlutverkum sem snúa að nýsköpun og sjálfbærni. Hún á sæti í stjórn Festu, miðstöðvar um sjálfbærni og hefur einnig átt sæti í nefndum og starfshópum m.a. á vegum ráðuneyta og stofnana.

Hún segir kærkomið að stíga inn í félag þar sem frumkvöðlastarf blómstrar og dýnamíkin sé allsráðandi, þrátt fyrir að sakna samstarfsins við nemendur og starfsfólk Háskólans í Reykjavík. „Það er mjög heillandi að starfa í félagi sem er jafn alþjóðlegt og Kerecis.“

Maki Hrefnu er Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, og eiga þau þrjú börn. „Ég nota þann frítíma sem gefst til útivistar, líkamsræktar og ferðalaga. Auk þess er ég mikill kaffiunnandi og fer ekki í gegnum daginn án þess að fá mér tvo vel valda kaffibolla.“

Hrefna er einnig mikil áhugakona um rauðvín. „Ég kann vel að meta gott rauðvín á góðum stundum og hef farið í nokkrar ógleymanlegar heimsóknir á gullfalleg vínyrkjubú bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Tvö af börnum mínum búa erlendis svo ég hef líka ríka ástæðu til að vera talsvert á ferðinni.“

Nánar er rætt við Hrefnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .