Birtinga- og ráðgjafafyrirtækið Datera hefur ráðið Andreu Rut Eiríksdóttur og Ingvar Haraldsson sem sérfræðinga í ört vaxandi teymi fyrirtækisins, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Hjá Datera starfa nú alls 10 sérfræðingar.

Andrea útskrifaðist í vor sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands ásamt því að klára diplóma nám í stafrænni markaðssetningu. Með námi starfaði Andrea í verslun Hugo Boss og sá um samfélagsmiðla fyrirtækisins ásamt því að vera handboltaþjálfari hjá Gróttu.

Ingvar kemur til Datera frá íslenska tölvuleikjafyrirtækinu Directive Games þar sem hann stýrði öllum markaðsmálum fyrir tölvuleikinn The Machines Arena. Fyrir það starfaði hann við sölu- og þjónustu hjá Bláa lóninu. Ingvar er með M.sc gráðu í vörumerkja- og samskiptastjórnun frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn og B.Sc. gráðu frá Háskóla Íslands.

Hreiðar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri Datera:

„Við hjá Datera erum virkilega ánægð að fá þau Andreu og Ingvar í liðið og þau koma inn í þéttan hóp reynslumikilla sérfræðinga. Bæði eru þau með fjölbreytta reynslu sem á eftir að nýtast vel í skemmtilegum og krefjandi verkefnum með viðskiptavinum okkar.“

Datera er alhliða birtingahús sem sérhæfir sig í stjórnun gagnadrifinna herferða, uppsetningu sjálfvirkra auglýsingaherferða, leitarvélabestun og alhliða ráðgjöf í markaðsmálum.