Andri Þór Atlason hefur gengið til liðs við mannauðslausnir Advania til að leiða vörustýringu og þróun Bakvarðar. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Bakvörður er tíma- og verkskráningakerfi Advania, og þjónar stórum hluta vinnustaða í íslensku atvinnulífi.

Andri starfaði áður hjá Abacus Medicine og hefur víðtæka reynslu úr tækni- og lyfjageiranum í Kaupmannahöfn. Hann er menntaður viðskiptafræðingur með meistaragráðu í nýsköpun og viðskiptaþróun frá Copenhagen Business School.

Andri Þór:

„Ég er gríðarlega ánægður að ganga til liðs við mannauðslausnir Advania sem hafa verið í örri þróun síðastliðin ár. Það eru spennandi nýjungar framundan hjá Bakvarðar-teyminu, svo sem innleiðing á vaktakerfi og nýjum reglureikni sem auðveldar fyrirtækjum að vinna með íslenska kjarasamninga. Ég hlakka til að takast á við þessi verkefni og mun leggja mikið upp úr því að vinna náið með viðskiptavinum við frekari þróun Bakvarðar.“

Þórður Ingi Guðmundsson, forstöðumaður mannauðslausna Advania:

„Við erum virkilega ánægð að fá jafn öflugan einstakling eins og Andra inn til okkar. Reynsla hans og fjölbreytt þekking á vöruþróun og nýsköpun mun nýtast vel við að leiða þróun á lausnum Advania. Andri hefur brennandi áhuga á að bæta upplifun notenda  sem rímar vel við áherslur mannauðslausna.“