Anna Fríða Gísladóttir hefur verið ráðin forstöðumaður markaðsmála hjá flugfélaginu Play. Hún mun leiða markaðsstarf flugfélagsins og fara fyrir áframhaldandi uppbyggingu á ásýnd félagsins.

Anna Fríða tekur við stöðu forstöðumanns markaðsmála af Steinari Þór Ólafssyni. „Play þakkar Steinari fyrir vel unnin störf hjá flugfélaginu og óskar honum velfarnaðar í komandi verkefnum,“ segir í tilkynningu Play.

Anna Fríða er 31 árs og kemur til PLAY frá BioEffect. Þar starfaði hún sem Brand & Campaign Manager á alþjóðavísu ásamt því að sjá um markaðsmál fyrirtækisins á Íslandi. Þar áður var hún markaðsstjóri Domino´s á Íslandi í 7 ár og sat í framkvæmdastjórn fyrirtækisins.

Anna Fríða á einnig sæti í stjórn ÍMARK, samtökum markaðsfólks á Íslandi, og sér um vikulegan lið á samfélagsmiðlum ÍMARK þar sem farið er yfir fréttir vikunnar í heimi markaðsmála á Íslandi.

Anna Fríða Gísladóttir:

„Ég hlakka mikið til að vera hluti af uppbyggingu hjá Play sem hefur átt virkilega öfluga innkomu á flugmarkaðinn. Félagið hefur unnið faglegt og metnaðarfullt starf í markaðsmálum og það verður spennandi að halda þeirri vegferð áfram.“

Georg Haraldsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs flugfélagsins:

„Það er mikill fengur að fá Önnu Fríðu til okkar hjá PLAY. Hún hefur gert frábæra hluti hjá BIOEFFECT og Domino´s undanfarin ár og mun alþjóðleg reynsla hennar af markaðsmálum koma sér vel við að kynna PLAY á erlendri grundu. Það er því mikil eftirvænting fyrir komandi tímum hér hjá PLAY með þessum liðsauka.”