Anna Katrín Halldórsdóttir var nýlega ráðin framkvæmdastjóri Alfreðs og hefur þegar tekið til starfa.

Alfreð er stærsti atvinnuleitarmiðill á landinu og býður upp á heildstætt kerfi fyrir fyrirtæki allt frá starfsauglýsingu til ráðningar. Alfreð fór fyrst í loftið árið 2013 og hefur vöxtur fyrirtækisins verið stöðugur síðan, að því er kemur fram í tilkynningu. Nú starfar Alfreð á fjórum mörkuðum en auk Íslands er Alfreð í Tékklandi, á Möltu og í Færeyjum.

Anna Katrín tekur við starfinu af Halldóri Friðriki Þorsteinssyni, öðrum aðaleiganda Alfreðs, sem verið hefur framkvæmdastjóri fyrirtækisins undanfarin tvö ár. Halldór mun nú einbeita sér að erlendum mörkuðum og uppbyggingu starfseminnar erlendis.

Anna Katrín hefur áralanga reynslu sem stjórnandi í íslensku atvinnulífi, hefur starfað sem stjórnendaráðgjafi og setið í stjórnum fyrirtækja. Hún er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Copenhagen Business School og hefur lokið AMP stjórnendanámi frá IESE Business School í Barcelona.

Anna Katrín Halldórsdóttir, nýr framkvæmdastjóri Alfreðs:

„Það er sérstaklega spennandi að ganga til liðs við Alfreð á þessum tímapunkti. Rekstur fyrirtækisins hefur gengið vel og vöxtur þess verið mikill undanfarin ár. Alfreð er vel þekkt vörumerki á Íslandi og býður framúrskarandi lausnir fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Framundan eru spennandi tímar hjá félaginu þar sem horft er til erlendra markaða og frekari þróunar á starfseminni á Íslandi jafnt sem erlendis.“