Auglýsingastofan Cirkus hefur ráðið hönnuðinn Anton Darra van der Linden Pálmarsson til starfa. Undanfarin tvö og hálft ár hefur hann starfað hjá auglýsingastofunni Kiwi við grafíska hönnun og hreyfihönnun.

Anton, sem er 26 ára Akureyringur, lærði grafíska hönnun við Myndlistarskólann á Akureyri og fór þaðan í mastersnám til Ítalíu. Árið 2019 útskrifaðist hann með hæstu einkunn frá IED Firenze í Flórens.

Að auki hefur Anton hannað tvær leturtegundir frá grunni – Barracuda og Shrimp, en það síðarnefnda naut töluverðra vinsælda og hefur verið halað niður yfir 75.000 sinnum.

„Það er ótrúleg heppni að hafa fengið Anton til liðs við okkur. Hann er ungur en gríðarlega hæfileikaríkur og fjölhæfur hönnuður með ferskar hugmyndir, sem gerir okkur kleift að þjónusta okkar viðskiptavini enn betur,“ segir Guðlaugur Aðalsteinsson, Cirkusstjóri.

Cirkus var stofnuð árið 2020 og er í eigu Guðlaugs Aðalsteinssonar, Hauks Viðars Alfreðssonar, Jens Nørgaard-Offersen og Þorvaldar Sævars Gunnarssonar. Cirkus hafði aðsetur í Kringlunni þar til fyrir skömmu, en hefur nú fært sig um set og er nú til húsa við Laugaveg 3.

Stofan hefur unnið að verkefnum fyrir fjölmörg vörumerki, fyrirtæki og stofnanir á borð við Kjarnafæði Norðlenska, Goða, KEA, CCEP, Svens, Williams&Halls, Ölverk, KPMG, Krabbameinsfélagið og Heimkaup.