Ari Skúlason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), mun taka við starfi framkvæmdastjóra samtakanna samhliða formennsku fyrir næstu áramót.

Ari, sem hefur starfað sem hagfræðingur hjá Landsbankanum í átján ár, hóf störf á skrifstofu SSF þann 1. mars síðastliðinn. Hann mun fyrst um sinn starfa við hlið Friðberts Traustasonar, núverandi framkvæmdastjóra samtakanna, en tekur síðan við stöðu framkvæmdastjóra um næstu áramót.

„Við bjóðum Ara hjartanlega velkominn til starfa, framundan eru átakatímar og mikilvægt að félagsmenn standi þétt saman að baki forystu Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja í kjarabaráttunni,“ segir í tilkynningu á vef SSF.

Ari, sem var kjörin formaður SSF á þingi samtakanna í mars 2022, lýsti því nýlega að andrúmsloftið í kjaraviðræðum við SA, sem lauk í byrjun árs, hefði verið slæmt.

Þrátt fyrir að bankarnir hefðu hafnað ölum sínum kröfum ákvað SSF að skrifa undir kjarasamning, sem var í samræmi við samning SA og SGS, þar sem samtökin töldu ekki skynsamlegt að ganga til aðgerða fyrir eins árs samning. Hins vegar muni SSF koma að fullum krafti inn í næstu samningaviðræður.