Arnar Már Magnússon, flugstjóri og einn af stofnendum Play, mun senn taka aftur við sem framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs félagsins, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Arnar Már er einn af stofnendum Play og var forstjóri flugfélagsins á árunum 2019-2021, áður en félagið hóf sig til flugs.

Arnar var framkvæmdastjóri sviðsins þar til fyrir rúmu ári þegar hann ákvað að setjast aftur í flugstjórasætið í fullu starfi. Í desember síðastliðnum greindi hann frá því að hann hefði sagt starfi sínu lausu.

Arnar tekur við framkvæmdastjórastöðunni af Guðna Ingólfssyni sem mun láta af störfum á næstunni. Guðni hefur verið framkvæmdastjóri sviðsins frá því í mars 2022.

„Það er mikið tilhlökkunarefni að vinna með öflugum hópi fagfólks á flugrekstrarsviði Play á nýjan leik, fólki sem ég þekki þegar vel. Það hefur gefið mér afskaplega mikið að vinna síðastliðið ár í framlínunni og fljúga okkar glæsilegu og nýju Airbus flugvélum til allra okkar áfangastaða bæði í Norður Ameríku og Evrópu, með frábærum hópi flugfólks bæði í flugstjórnarklefanum og farþegarými. Það eru spennandi tímar fram undan enda mikil uppbygging á komandi mánuðum hjá flugfélaginu sem gaman verður að takast á við með frábæru samstarfsfólki í lofti sem og á jörðu niðri,” segir Arnar Már Magnússon.

„Ég er ofsalega ánægður með að fá Arnar Má aftur í framkvæmdastjórn Play á þessum tímapunkti, úthvíldan og til í slaginn með okkur. Arnar hefur verið lykilmaður í sögu Play enda einn af stofnendum félagsins. Arnar var öflugur liðsmaður framkvæmdastjórnar félagsins áður en hann ákvað að háloftin kölluðu og það er gott að fá krafta hans aftur inn í framkvæmdastjórn Play á þessu mikilvæga ári í sögu félagsins. Ég veit að flugrekstrarsviðið verður í góðum höndum hjá Arnari,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.

„Á sama tíma vil ég þakka Guðna Ingólfssyni kærlega fyrir vel unnin störf síðasta árið á mikilvægum uppbyggingartíma félagsins. Ég óska honum jafnframt góðs gengis í því sem hann tekur sér fyrir hendur‏.“

Guðni Ingólfsson.
© Aðsend mynd (AÐSEND)