Gréta María Grétarsdóttir hefur sagt upp stöðu sinni sem forstjóri Arctic Adventures, að því er kemur fram í tilkynningu. Ásgeir Baldurs hefur verið ráðinn í hennar stað og mun hefja störf á næstu dögum.

Ásgeir, sem var forstjóri VÍS á árunum 2006-2007, hefur starfað sem framkvæmdastjóri fjárfestinga hjá TM undanfarið eitt og hálft ár. Hann var þar áður hjá Kviku og dótturfélögum, þar á meðal sem forstöðumaður í fyrirtækjaráðgjöf, forstöðumaður sérhæfðra fjárfestinga og fjárfestingastjóri.

Gréta María var ráðin forstjóri Arctic Adventures í árslok 2021 en hún hafði þar áður starfað sem framkvæmdastjóri nýsköpunar, samfélagsábyrgðar og fjárfestatengsla hjá útgerðarfélaginu Brimi og var framkvæmdastjóri Krónunnar á árunum 2018-2020.

„Stjórn Arctic Adventures þakkar Grétu Maríu fyrir hennar mikilvæga framlag fyrir félagið og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi,“ segir í tilkynningunni.

Arctic Adventures er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins. Fyrirtækið skipuleggur, selur og sér um framkvæmd ferða og afþreyingar um allt land. Ársvelta félagsins var um 5,2 milljarðar króna í fyrra. Helstu dótturfélög Arctic Adventures eru Into the Glacier, Lava Tunnel og Your Day Tours.

Í lok apríl var greint frá því að hópur innlendra fjárfesta, sem fjárfestingarfélagið Stoðir leiddi, hefði gengið frá kaupum á nærri helmingshlut í Arctic Adventures. Stoðir eignuðust um 35% hlut í félaginu og eru nú stærsti einstaki hluthafinn.

Þá á Icelandic Tourism Fund, framtakssjóður í rekstri Landsbréfa, 20% hlut og Freyja, framtakssjóður á vegum Kviku eignastýringar, fer með með 16% hlut.