Procura fasteignasala hefur ráðið Ásgeir Þór Ásgeirsson sem framkvæmdastjóra og Oddnýju Maríu Kristinsdóttir sem verkefnastjóra rafrænna þjónustuferla. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Ásgeir Þór, sem verður jafnframt einn eigenda félagsins, mun stýra daglegum rekstri ásamt því að sinna sölu fasteigna. Ásgeir Þór útskrifaðist með B.S gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2016. Hann er löggiltur fasteignasali og starfaði áður við fasteignamiðlun á Lögheimili eignamiðlun.

Oddný María mun leiða áframhaldandi innleiðingu á rafrænum þjónustuferlum Procura sem miða að því að gera fasteignaviðskipti bæði öruggari og einfaldari. Oddný María er viðskiptafræðingur með B.Sc. gráðu frá Háskóla Íslands og er í námi til löggildingar fasteignasala. Hún kemur til Procura frá Arion banka.

Procura fasteignasala býður bæði kaup- og söluþjónustu fasteigna á föstum kjörum ásamt því að reka umfangsmikið safn aðgengilegra fasteignaupplýsinga á netinu, þar sem notendur geta framkvæmt verðmat á fasteignum og fengið einfalt greiðslumat. Þá býður vefur Procura einnig upp á notendavænar reiknivélar og samanburðartöflur um vaxtakjör ásamt aðgengi að öllum opinberum og þinglýstum gögnum um fasteignir.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, nýr framkvæmdastjóri Procura:

„Ég hlakka mikið til að halda áfram frekari uppbyggingu félagsins en Procura hefur unnið markvisst að því undanfarin ár að gera söluferlið þægilegra með rafrænum ferlum, ásamt því að vera með mikið af gögnum á vef okkar sem gagnast bæði kaupendum og seljendum. Við erum virkilega spennt að taka næstu skref í þeirri vegferð.“

Oddný María Kristinsdóttir, nýr verkefnastjóri rafrænna þjónustuferla hjá Procura:

„Við leggjum áherslu á gagnsæi í fasteignaviðskiptum og höfum verið að innleiða rafræna ferla sem miða að því að einfalda kaupferlið. Það er frábært tækifæri að fá að þróa þessi verkefni áfram og gera fasteignakaup að betri upplifun fyrir alla aðila sem að borðinu koma.”