Atli Fannar Bjarkason og Brynja Jónbjarnardóttir hafa verið ráðin í markaðsteymi Hugsmiðjunnar. Þau munu ásamt Margeiri Steinari Ingólfssyni leiða teymi innan fyrirtækisins sem sem sinnir alhliða markaðssetningu á internetinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hugsmiðjunni.

„Það er ótrúlegt hvað er hægt að gera í dag, sem var ekki hægt áður fyrr,“ segir Margeir. „Við höfum verið að hjálpa fyrirtækjum að ná betri árangri með því að nýta gögn og nýja tækni sem er í stöðugri þróun og með tilkomu Atla og Brynju viljum við gera enn betur fyrir viðskiptavini okkar. Möguleikarnir eru magnaðir og fyrirtækin sem nýta ekki tæknina munu sitja eftir.“

Atli Fannar Bjarkason hefur verið fjölmiðlamaður í meira en áratug og var meðal annars fréttastjóri á Fréttablaðinu og ritstjóri götublaðsins Monitor. Hann stofnaði Nútímann í ágúst árið 2014 og var ritstjóri þangað til vefurinn var seldur í haust. Nútíminn er sagður hafa vakið mikla athygli á skömmum tíma fyrir frísklega framsetningu og efnistök og var kjörinn besti vefmiðillinn á Íslensku vefverðlaununum 2014. Ári síðar var Atli Fannar svo kjörinn vefhetja ársins á verðlaunahátíðinni Nexpo.

„Ég er gríðarlega spenntur fyrir starfinu á Hugsmiðjunni. Á Nútímanum var markmiðið að ná til sem flestra. Það tókst oft ansi vel þrátt fyrir harða samkeppni frá risastórum vefmiðlum en hugmyndirnar og sérstaklega framsetningin skiptu fáránlega miklu máli. Hjá Hugsmiðjunni mun ég í raun fást við það sama, fyrir nýjan hóp, og ég get ekki beðið,“ segir Atli Fannar.

Brynja Jónbjarnardóttir er nýr ráðgjafi í markaðsteymi Hugsmiðjunnar og sinnir alhliða stafrænni markaðssetningu. Brynja er með BS í hagfræði frá HÍ og vann við rannsóknir hjá hagfræðideild HÍ. Hún stundaði sumarnám í markaðsfræði í Columbia-háskóla í New York og hefur starfað sem fyrirsæta í mörg ár og bjó m.a. í New York og París.

„Það er hægt að ná alveg ótrúlegum árangri með því að nýta gögn sem fyrirtæki eiga jafnvel til nú þegar. Verkefnið mitt er að hámarka þennan árangur og nýta þessi öflugu tól sem samfélagsmiðlar bjóða upp á. Með nýtingu gagna er hægt að ná til rétta fólksins og nýta um leið fjármagn sem fyrirtæki setja í markaðssetningu mun betur,“ segir Brynja.

Ragnheiður Þorleifsdóttir, framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar, er spennt fyrir viðbótinni í teymið.

„Kjarnastarfsemin okkar er vefþróun og markaðssetning á stafrænum miðlum og það hefur verið sívaxandi eftirspurn eftir þjónustu okkar við markaðssetningu og efnisframleiðslu og það að geta fengið úrlausn sinna mála á einum stað. Með ráðningunni á Atla Fannari og Brynju ætlum við að mæta þessari eftirspurn og ég hlakka til að sjá hvað þessi frjói hópur mun ná fram í samstarfi við okkar öfluga hönnunar- og tækniteymi,“ segir Ragnheiður.

Hugsmiðjan sérhæfir sig í hönnun og þróun stafrænna lausna, ásamt því að hjálpa fyrirtækjum að ná betri árangri með því að nýta kraftinn sem býr í réttri nýtingu á stafrænum miðlum.