Axel Kári Vignisson lögmaður hefur bæst í eigendahóp Íslensku lögfræðistofunnar sem um þessar mundir fagnar fimmtán ára afmæli sínu. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Aðrir eigendur stofunnar eru hæstaréttarlögmennirnir Arnar Kormákur Friðriksson, Haukur Örn Birgisson og Ómar Örn Bjarnþórsson.

Axel Kári er lögmaður með leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi. Hann sérhæfir sig í verkefnum á sviði vátryggingarréttar, refsiréttar og fasteignaréttar. Axel Kári er með meistaragráðu í lögfræði frá Lagadeild Háskóla Íslands og hefur starfað á Íslensku lögfræðistofunni frá árinu 2018.

Samhliða lögfræðistörfum hefur Axel Kári leikið knattspyrnu með ÍR en hann lagði skóna á hilluna á síðasta ári og gerðist formaður knattspyrnudeildar ÍR. Hann er leikjahæsti knattspyrnumaður í sögu félagins.