Síminn hefur ráðið Berglindi Björgu Harðardóttur og Erlu Ósk Ásgeirsdóttur í tvær nýjar framkvæmdastjórastöður hjá félaginu í kjölfar breytingar á skipuriti. Greint er frá ráðningu þeirra í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Berglind Björg Harðardóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra sölu og þjónustu frá og með 1. júní. Hún hefur starfað hjá Símanum frá árinu 2011 og gegnt starfi forstöðumanns Sölu og þjónustu frá árinu 2018. Áður starfaði Berglind hjá Verði, Sjóvá og Sameinaða líftryggingafélaginu. Berglind er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Viðskiptaháskólanum á Bifröst og hefur lokið PMD stjórnendanámi frá Háskólanum í Reykjavík.

Erla Ósk Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin í starf framkvæmdastjóra sjálfbærni og menningar frá og með 1. júlí. Erla var framkvæmdastjóri upplifunar starfsmanna hjá The Reykjavik Edition frá árinu 2021 til dagsins í dag. Áður starfaði hún sem forstöðumaður Mannauðs- og menningar hjá Icelandair Hotels frá árinu 2014 til 2021 og markaðsstjóri Handpoint frá árinu 2011 til 2014. Erla er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu og BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.

Sjá einnig: Síminn fjölgar framkvæmdastjórum

Síminn greindi frá fyrirhugaðri breytingu á skipuriti, sem felur í sér að sviðum fjölgi um tvö, í byrjun apríl. Fjarskiptafélagið sagði að breytingarnar eiga að „styðja við stuttar boðleiðir, ýta undir opin samskipti, fjölbreytt viðhorf og hraða ákvarðanatöku“. Auk þess sagðist Síminn með þessu leggja sérstaka áherslu á sjálfbærni og sjálfsafgreiðslu.

Orri Hauksson, forstjóri Símans:

„Við bjóðum nýja framkvæmdastjóra hjartanlega velkomna til starfa. Nýju fólki fylgir ný hugsun auk þess sem að þessar ráðningar auka verulega á fjölbreytni innan framkvæmdastjórnar. Síminn stendur á tímamótum nú í kjölfar sölu Mílu og það eru ótal spennandi verkefni framundan við að breyta félaginu til framtíðar.“