Birkir Jóhannsson, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra kjarnastarfsemi og stafrænna lausna hjá VÍS, hefur verið ráðinn forstjóri TM en hann tekur við starfinu af Sigurði Viðarssyni sem verður aðstoðarforstjóri móðurfélagsins Kviku banka. Birkir mun taka sæti í framkvæmdastjórn samstæðu Kviku.

Birkir kveður VÍS í dag, að því er kemur fram í Kauphallartilkynningu, en hann hóf störf hjá VÍS á fyrri hluta síðasta árs.

Birkir starfaði þar áður hjá ráðgjafafyrirtækinu Birti Capital Partners, þar sem var meðeigandi. Þar áður starfaði hann í fimm ár sem framkvæmdastjóri fjármála, reksturs og þróunar hjá Valitor. Á sínum ferli hefur hann einnig starfað í fyrirtækjaráðgjöf Arion banka og hjá Lögmönnum Höfðabakka.

Birkir er með embættispróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík. Auk þess hefur Birkir lokið prófi í verðbréfaviðskiptum og aflað sér réttinda sem héraðsdómslögmaður.

Birkir Jóhannsson, nýráðinn forstjóri TM:

„Ég er fullur tilhlökkunar að hefja störf hjá TM og kynnast því frábæra starfsfólki sem þar starfar. Miklar breytingar hafa orðið á íslenskum tryggingamarkaði á síðastliðnum árum. Samhliða því eru að verða breytingar á þeim samskipta- og dreifileiðum sem neytendur kjósa. TM og Kvika eru í kjörstöðu til að nýta sér þessar breytingar og er ég stoltur af því að fá að taka þátt í þeirri vegferð.“

Inga Björg Hjaltadóttir, stjórnarformaður TM:

„Við erum afar ánægð með að fá Birki inn í okkar öfluga stjórnendateymi hjá TM, til að leiða vegferð félagsins sem framundan er. Hann býr yfir margþættri reynslu úr fyrri störfum sem fellur einstaklega vel að stefnu TM hvað varðar stafræna þróun og tengingu við öflugar lausnir samstæðu Kviku á því sviði.

Á sama tíma vil ég þakka Sigurði Viðarssyni fyrir störf sín sem forstjóri TM. Hann hefur á farsælan hátt leitt krefjandi breytingarferli í kjölfar samruna TM og Kviku og það er gott fyrir TM að hann verður áfram sterk rödd í samstæðu Kviku sem aðstoðarforstjóri. Sigurður hefur átt mjög farsælan feril sem forstjóri TM s.l. 15 ár, félagið hefur verið í fararbroddi í þróun á tryggingamarkaði og reksturinn verið afar traustur.“

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS:

„Ég vil þakka Birki fyrir farsælt samstarf ─ og vil jafnframt þakka honum fyrir hans framlag í þágu félagsins. Ég óska honum alls hins besta í framtíðinni.“