Bjarni Hrafn Ingólfsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra ferðaskrifstofunnar Terra Nova. Terra Nova er eitt allra stærsta fyrirtækið í móttöku erlendra ferðamanna til Íslands og hefur verið leiðandi á því sviði í yfir þrjá áratugi. Terra Nova er hluti Primera Travel Group fyrirtækjasamsteypunnar sem rekur ferðaskrifstofur á öllum norðurlöndunum, auk flugfélagsins Primera Air, og er þriðja stærsta fyrirtæki á sínu sviði á norðurlöndunum segir í tilkynningu.

Bjarni Hrafn lauk prófi í rekstrarfræði frá Samvinnuháskólanum á Bifröst og M.Sc. í rekstrarhagfræði frá Viðskiptaháskólanum í Árósum í Danmörku. Hann hefur gegnt starfi markaðsstjóra Heimsferða, systurfyrirtækis Terra Nova, undanfarin fimm ár. Bjarni Hrafn er giftur Ingu Þórisdóttur viðskiptafræðingi og á fjögur börn á aldrinum 2 til 24 ára.

Í tilkynningu segir að framundan eru einstaklega spennandi tímar í ferðaþjónustu á Íslandi og fjölmörg tækifæri sem felast í auknum áhuga ferðamanna á Íslandi. Árið 2009 hefur verið metár bæði í umfangi og afkomu Terranova, og hefur sérstaklega verið mikil aukning í viðskiptum nýrra viðskiptavina Terranova. Á næsta ári er fyrirsjáanleg mikil aukning í fjölda ferðamanna sem kemur til Íslands á vegum Terra Nova frá m.a. Þýskalandi, Frakklandi, Spáni, Ítalíu, Bretlandi, Svíþjóð, Kanada, Noregi, Finnlandi, Danmörku og víðar.