„Starfið leggst mjög vel í mig. Þetta er rótgróið fyrirtækið með öflugt og gott starfsfólk,“ segir Þórhildur Rún. Hún segir fyrirtækið standa frammi fyrir ýmsum áskorunum.

„Við erum að kljást við eftirmála faraldursins og afleiðingar Úkraínu stríðsins. Aðfangakeðjan er viðkvæmari sem er í einhverjum tilfellum að leiða til seinkana á afhendingum. Við erum líka að sjá miklar verðhækkanir hjá birgjum vegna hækkana á hrávöruverði og framleiðslukostnaði. Við erum stöðugt að leita leiða til hagræðingar og sjálfvirknivæðingar til að lágmarka að þurfa að hækka vöruverð.“ Í áskorunum felast þó ekki síður tækifæri en Þórhildur segir fyrirtækið standa frammi fyrir miklum tækifærum „Það eru alltaf tækifæri til vaxtar, bæði að fara inn á nýja markaði auk þess að kynna nýjar vörur fyrir markaðinum“

Þórhildur starfaði síðast sem forstöðumaður viðskipta og markaðsmála hjá Isavia, hún segir að fyrri reynsla muni nýtast vel á nýjum vettvangi.

„Ég hef komið víða við og lært mikið af fjölbreyttum fyrirtækjarekstri og menningu sem að ég held að muni koma að góðum notum við stýringu hjá Nathan & Olsen. Það eru oftast sömu hlutirnir sem skipta starfsmenn máli eins og finna að starf þitt hafi tilgang, eiga góð samskipti, skilningur á hlutverki hvors annars, teymisvinna og skýr ábyrgðarsvið og markmið. Þetta skapar meðal annars góðan vinnustað og árangur. Mín stjórnunar- og rekstrarreynsla nýtist vonandi vel í að byggja upp öflugan vinnustað. Mig langar að skapa góða fyrirtækjamenningu með opnum og góðum samskiptum þannig að auðvelt sé að leysa erfið mál og leita leiða til að gera hlutina betur.“

Þórhildur er í sambúð með Sveini Líndal Jóhannssyni en hann starfar sem markaðsráðgjafi hjá Ennemm og eiga þau tvö börn saman. Þau eru búsett í Mosfellsbæ og njóta þeirrar náttúrufegurðar sem er í nágrenni við bæinn. Þórhildur er mikil félagsvera og nýtur sín best þegar hún er með vinum og fjölskyldu. Þórhildur er í villinga golfhópnum Gollunum með vinkonum og fyrrum samstarfskonum frá Símanum. Á veturna er svo blak skemmtihópur sem heldur henni upptekinni og skíði þegar tími gefst til.

Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.