Þetta er ótrúlega fjölbreytt og skemmtilegt starf," segir Sara Dögg Svanhildardóttir, nýr skrifstofustjóri Samtaka verslunar og þjónustu, en hún hefur jafnframt umsjón með mennta- og fræðslumálum hjá samtökunum.

„Það eru margs konar spennandi verkefni sem maður er að fá inn á borð til sín. Það eru gríðarlega spennandi hlutir að gerast í menntamálum um þessar mundir og það er gaman að fá að koma inn í þessi mál núna á tímum mikilla breytinga," segir hún.

Sara er menntaður grunnskólakennari og að hennar sögn brennur hún fyrir mennta- og fræðslumálum. „Ég var lengi vel skólastjóri hjá Barnaskóla Hjallastefnunnar, hef starfað sem grunnskólakennari og gegnt ýmsum stöðum sem tengjast menntamálum. Mennta- og fræðslumál hafa alltaf verið svolítið mín deild og áhugasvið mitt liggur innan þessa málaflokks.

Sara er gift Bylgju Hauksdóttur og búa þær saman í Garðabæ. Þær eru stuðningsforeldrar fyrir 15 ára gamla stúlku og eyða þær mörgum dýrmætum stundum með henni. Sara lætur sig málefni bæjarfélagsins miklu varða og situr hún í bæjarstjórn Garðabæjar sem bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans.

Sara segir að sitt helsta áhugamál sé útivist. „Ég hjóla mikið og á bæði „racer" og fjallahjól. Mér þykir einnig mjög skemmtilegt í golfi, en ég byrjaði að spila golf fyrir 4-5 árum síðan. Á tímabili tók ég oft tvo golfhringi á dag þegar ég var í fríi. Ég er með mikið keppnisskap og því lagði ég mikið upp úr því að æfa mig mikið til þess að bæta spilamennskuna. Auk þess hef ég lengi stundað skíði og nú nýlega fjárfesti ég í mínum fyrstu gönguskíðum. Svo er ég einnig dottin inn í crossfit-ið og hef í gegnum það öðlast mikinn áhuga á ólympískum lyftingum. Það má í raun segja að ég sé mikil dellukona og flest áhugamál mín tengjast einhvers konar hreyfingu."

Sara hefur að eigin sögn einnig mjög gaman af ferðalögum og þegar hún fer í utanlandsferðir verða oft útivistarferðir fyrir valinu, eins og til dæmis skíðaferðir eða hjólaferðir. Nefnir hún hjólaferð sem hún fór í um svokallaðan Jakobsveg, sem dæmi um eftirminnilegt ferðalag sem hún hefur farið í á síðustu árum. „Jakobsvegurinn er þekkt gönguleið en við fórum hann á hjóli. Þetta var ótrúlega áhugaverð ferð og mikil upplifun. Hún var það skemmtileg að ég myndi gjarnan vilja fara aftur í svona ferð. Ég myndi hiklaust mæla með því að fólk prófi að ganga eða hjóla þennan stíg."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .