„Hér hjá Skeljungi eru ótrúlega spennandi tækifæri, enda fyrirtækið í góðri stöðu og vel þekkt með gríðarlega reynslumikið og gott starfsfólk svo mitt verkefni þessa dagana er bara að ná aðeins utan um þetta og keyra það svo vel áfram,“ segir Árni Pétur Jónsson, nýr forstjóri Skeljungs, en þetta eru langt í frá fyrstu kynni hans af fyrirtækinu.

„Afi minn, Guðfinnur Friðriksson, var umboðsmaður Skeljungs í Bolungarvík þar sem ég ólst upp og byrjaði ég sem ungur strákur að vinna í Shellskálanum hjá honum, dæla bensíni á bíla og í sjoppunni. Þegar ég var svo að vinna fyrir Baug, þar sem ég var yfir matvörusviðinu sem í voru Bónus, 10-11, Lyfja, Aðföng, Bananar og fleiri, þá var ég stjórnarmaður hér eftir kaup þeirra í Skeljungi þá.“

Árni Pétur keypti síðan á árunum eftir efnahagshrunið 10-11 verslanirnar af Arion banka. „Það er ekki hægt að segja að það hafi verið einhver svakalega mikill áhugi á félaginu á þessum árum enda efnahagsumhverfið mjög þröngt og staða 10-11 tvísýn sem kannski skýrir afhverju ég endaði á að fá að kaupa. Ætli þar hafi ekki reynsla og þekking á félaginu skipt máli en það varð okkur til happs að leggja áherslu á minni búðir og góðar staðsetningar sem stíluðu inn á ferðamanninn,“ segir Árni Pétur.

„Síðar hringdi Malcolm Walker, stofnandi og forstjóri Iceland verslunarkeðjunnar, í mig og sagði mér frá veikindum Jóhannesar sem hafði þá verið að opna búðir undir þeirra merkjum hér á landi. Við Malcolm þekktumst vel frá því að ég hafði unnið með honum eftir að Baugur keypti keðjuna úti, áður en hann keypti hana á ný, og bað hann mig að koma að Iceland hér. Þannig rennur það inn í félag við hlið 10-11 og Basko verður til utan um þau bæði. Síðan seldi ég rúmlega 80% af Basko árið 2016 og hætti að vinna þar fyrir rúmu ári og mun núna losa þau vel innan við 20% sem ég á eftir.“

Þó að Árni Pétur hafi aldrei æft með knattspyrnufélaginu Val hefur hann stutt félagið lengi og var hann kjörinn formaður þess á síðasta aðalfundi. Hann er giftur Guðrúnu Elísabetu Baldursdóttur hágreiðslumeistara en saman eiga þau þrjú börn, 24 ára stúlku og stráka sem eru 20 ára og 12 ára.

„Í frístundum mála ég og hef gaman af því að fara á sýningar og skoða hvað er að gerast þar, þó ég sé alger amatör. Ég teiknaði alltaf mikið en þegar ég kom suður til að læra viðskiptafræði fór ég að fara í kvöldnámskeið í myndlistarskólanum. Síðar kynntist ég Tolla fyrir tilviljun sem bauð mér að koma á vinnustofuna til sín og prófa að mála, sem mér þótti fáránleg hugmynd en ég lét vaða og hef ég lært ótrúlega mikið af honum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .