Dagmar Viðarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður mannauðsmála hjá Póstinum. Í tilkynningu þar sem greint er frá ráðningu hennar segir að hún komi inn í teymi lykilstjórnenda og muni leiða samþættingu á mannauðsstefnu fyrirtækisins við viðskiptastefnu þess.

Dagmar hafi yfirgripsmikla reynslu úr atvinnulífinu og meðal annars starfað undanfarin 17 ár við stjórnun mannauðsmála hjá ÍAV, Marel og Alvotech. Hún er með B.sc. gráðu í viðskiptafræði, M.sc. í mannauðsstjórnun auk diplóma gráðu í markþjálfun og sáttamiðlun. Dagmar hefur þegar hafið störf.

„Það eru ótrúlega spennandi tímar framundan hjá Póstinum og ég tek við starfinu full tilhlökkunar. Pósturinn hefur verið á fljúgandi siglingu og rekstrarumhverfið breyst mikið á undanförnum árum. Stafræna vegferðin sem fjórða iðnbyltingin færir okkur tekur einnig til mannauðsmála og margar áskoranir og tækifæri skapast. Pósturinn hefur verið í fararbroddi í mannauðsmálum undanfarin misseri og hér starfar frábært teymi einstaklinga með yfirgripsmikla þekkingu á öllum sviðum mannauðsmála. Það er gaman að finna kraftinn og samhuginn í starfsmönnum enda eru allir hér með augun á sama markmiði, sem er að tengja saman fólk, staði og samfélög. Þannig náum við að mæta viðskiptavinum okkar þar sem þeir eru staddir og veita framúrskarandi þjónustu," er haft eftir Dagmar í tilkynningunni.

„Ég er mjög ánægð með að fá Dagmar til liðs við okkur. Hún hefur víðtæka reynslu og við fundum strax að hún væri rétti aðilinn í starfið. Mannauðsmálin spila lykilhlutverk í árangri Póstsins til framtíðar og það er dýrmætt að fá svona kraftmikinn einstakling inn í teymi lykilstjórnenda. Ég hlakka til að vinna með Dagmar og er sannfærð um að hún muni hjálpa okkur að ná enn betri árangri," segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins, í tilkynningunni.