Daníel Friðriksson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri rekstrar hjá Keahótelum ehf. Daníel mun stýra starfsemi níu hótela félagsins sem lýtur m.a. að kostnaðargreiningu, upplifun gesta, þjónustu og fræðslumálum starfsmanna, að því er kemur fram í tilkynningu.

Daníel hefur fjölbreytta og alþjóðlega reynslu af hótelrekstri þar sem hann hefur meðal annars unnið á fimm stjörnu hótelum í Bandaríkjunum og Þýskalandi auk þess að stýra tveimur hótelum á Íslandi. Daníel hefur góða þekkingu á starfsemi félagsins, en hann hefur verið starfandi hjá Keahótelum frá árinu 2021.

Daníel er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum á Bifröst og Bachelorgráðu í hótelrekstri frá César Ritz Colleges í Sviss.

Keahótel ehf. er eitt stærsta hótelfélag landsins og rekur níu hótel. Í Reykjavík eru hótelin 6 talsins, Hótel Borg , Apótek, Sand, Skuggi, Storm og Reykjavík Lights. Félagið rekur einnig Hótel Kea á Akureyri, Sigló Hótel á Siglufirði og Hótel Kötlu í Vík.