Dóri Andrésson hefur verið ráðinn hönnunarstjóri hjá Vista Data Vision og mun hann í því hlutverki leiða og þróa stafræna ásýnd fyrirtækisins.

Dóri útskrifaðist sem grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands og er með áralanga reynslu af uppbyggingu vörumerkja og markaðsmálum.

Hann hefur áður starfað sem aðstoðarhönnunarstjóri á Íslensku auglýsingastofunni og Brandenburg og hafa verkefni undir hans stjórn hlotið ýmis alþjóðleg verðlaun sem og fjölda FÍT og Ímark verðlauna Dóri hefur einnig sinnt dómnefndarstörfum fyrir FÍT og Art Directors Club of Europe.

Þetta er ný og annars konar áskorun fyrir mig. Ég hef fylgst með fyrirtækinu vaxa og ég er að koma inn á mjög spennandi tíma. Það bíða mín metnaðarfull verkefni sem verður gaman að takast á við " segir Dóri.

Þórarinn Örn Andrésson framkvæmdastjóri Vista Data Vision tekur í sama streng í tilkynningu um ráðninguna.

„Það er mikill fengur fyrir okkur að hafa fengið Dóra til liðs við okkur. Það hefur lengi verið á dagskrá að auka hönnunarkraft fyrirtækisins. Ráðning hans er liður í því að styrkja hópinn okkar enn frekar og koma VDV í fremstu röð út frá viðmóti og notendaupplifun."

Vista Data Vision er leiðandi í þróun og útgáfu á hugbúnaði sem sérhæfir sig í framsetningu á rauntíma mæligögnum (e. Data Visualization). Hugbúnaðurinn er notaður í 6 heimsálfum fyrir fjölbreytt verkefni, á borð við stærstu vatnsaflsstíflu Víetnam, HM-grasið í Katar, Grand París Metro og IoT Smart City. Nýverið gerði stofan 200 milljóna króna samning við Fugro, sem er ein stærsta hönnunar- og verkfræðistofa í heimi, um notkun á hugbúnaðinum.