Ráðgjafafyrirtækið Strategía hefur tekið upp samstarf við Eddu Blumenstein. Edda ráðleggur fyrirtækjum hvernig þau geta gripið tækifæri sem stafræna byltingin hefur upp upp á að bjóða með svokallaðri Omni Channel innleiðingu, þar með talið fyrirlestrum, vinnustofum, greiningum og áætlanagerð.

Í Omni channel nálgun er öll áhersla í sölu og markaðssetningu þróuð útfrá þörfum og væntingum viðskiptavina segir í fréttatilkynningu. Fyrirtæki hætta að hugsa út frá einstaka kanölum (netverslun, verslun, samfélagsmiðlum, fréttabréfum o.s.frv.) og hugsa í staðinn um samþættingu allra kanala og heildar upplifun viðskiptavina á öllu kaupferlinu (customer purchase journey), frá vitund til kaupa og tryggðar við fyrirtækið.

Edda er með áralanga reynslu af sölu og markaðssetningu, markaðsgreiningum, markaðsáætlanagerð, stjórnun, og stefnumótun. Edda hefur einnig stofnað og rekið heimasíður og netverslanir fyrir alþjóðleg vörumerki og haldið fjölda námskeiða tengda markaðsmálum og Omni channel.

Edda er með B.Sc gráðu í International Marketing frá Háskólanum í Reykjavík, Mastersgráðu í Fashion, Enterprise and Society frá Leeds University og er í dag að vinna að doktors rannsókn í innleiðingu fyrirtækja á Omni Channel við Leeds University Business School.

Stafræn bylting - Fjórða iðnbyltingin

Sjaldan eða aldrei hefur verið meira um nýjar áskoranir og tækifæri fyrir nútíma stjórnendur, sem hafa veruleg áhrif á stefnumótun til skemmri og lengri tíma. Mikið hefur verið rætt um áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar á starfsemi fyrirtækja um allan heim og snertir það ekki síður íslensk fyrirtæki. Þörf fyrir sérhæfða ráðgjöf hefur aukist til muna samhliða vitundarvakningu stjórnenda um þau tækifæri sem felast í nútíma stjórnun.

Ráðgjafar Strategíu hafa á undanförnum misserum veitt ráðgjöf til fyrirtækja og stofnana sem nýtist þeim til að nýta tækifæri sem fylgja stafrænni þróun, s.s. við störf og stjórnarhætti stjórna og stjórnenda, stefnumótun og innleiðingu stefnu, fjármál og rekstur ásamt starfsdögum og námskeiðum. Samstarf Strategíu við Eddu er mikilvæg viðbót við ráðgjöf við viðskiptavini Strategíu og mun án efa reynast mikilvægur virðisauki í ráðgjöf til þeirra.

Um Strategíu – nýjar skrifstofur í Húsi verslunarinnar

Strategía er sérhæft ráðgjafarfyrirtæki sem veitir ráðgjöf til eigenda, stjórna og stjórnenda fyrirtækja og stofnana. Strategía byggir á áratuga stjórnunar- og rekstrarreynslu ráðgjafa Strategíu og innsýn þeirra í viðfangsefni eigenda og stjórnenda.

Strategía starfar á flestum sviðum ráðgjafar við eigendur, stjórnir og stjórnendur, s.s. við stefnumótun, breytingastjórnun, stjórnendaþjálfun, lögboðna og góða stjórnarhætti, lögfræðiráðgjöf, rekstur fyrirtækja og stofnana, undirbúning jafnlaunavottunar og ráðgjöf við fjárfestingar og fjármögnun.

Strategía hefur flutt skrifstofur sínar af Suðurlandsbraut og yfir í Hús verslunarinnar, Kringlunni 7, 103 Reykjavík. Meðeigendur Strategíu eru Guðrún Ragnarsdóttir, Helga Hlín Hákonardóttir hdl. og Margrét Sanders.