Eggert Benedikt Guðmundsson, fyrrum forstjóri HB Granda og N1, hefur verið ráðinn í starf leiðtoga á sviði sjálfbærrar þróunar í forsætisráðuneytinu og mun hefja störf í ágúst næstkomandi. Var hann valinn úr hópi 47 umsækjenda en starfið var auglýst í apríl síðastliðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

„Starf leiðtoga á sviði sjálfbærrar þróunar er nýtt starf í forsætisráðuneytinu. Meðal áhersluatriða er mótun stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun, samvinnu við sveitarfélög og við aðila vinnumarkaðarins um réttlát umskipti og samhæfing ólíkra ráðuneyta við eftirfylgni aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum,“ segir í tilkynningunni.

Í lok síðasta árs lét Eggert Benedikt af störfum sem forstöðumaður Grænvangs, samstarfsvettvangs atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir, en hann hafði gengt þeirri stöðu í rúm tvö ár. Þar áður var hann forstjóri nýsköpunarfyrirtækisins eTactica nýsköpunarfyrirtækið sem starfar á sviði raforkueftirlitskerfa.

Eggert Benedikt starfaði sem forstjóri N1 á árunum 2012-2015 og var þar áður forstjóri HB Granda í rúm átta ár.

Hann er með meistarapróf í rafmagnsverkfræði frá Háskólanum í Karlsruhe og MBA próf frá IESE viðskiptaháskólanum í Barcelona.