Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, hefur sagt starfi sínu lausu frá 1. ágúst næstkomandi að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Gert hefur verið samkomulag um starfslok hans.

„Félagið stendur á tímamótum eftir mikla uppbyggingu undanfarinna ára og telur forstjóri að á þessum tímamótum sé æskilegt að leitað verði til nýs einstaklings til að leiða starfsemi þess,“ segir í tilkynningunni. „Stjórn og forstjóri hafa átt farsælt samstarf undanfarin ár í gegnum mikinn uppbyggingarfasa. Viðvarandi góður rekstrarárangur félagsins ber þess glöggt merki.“

Eggert tók við starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs N1 í júní árið 2011 og starfi forstjóra Festi, áður N1, í febrúar 2015. Hann kom til N1 frá Sjávarsýn, fjárfestingafélagi Bjarna Ármannssonar, þar sem hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra. Þar áður var hann framkvæmdastjóri eignastýringar Glitnis banka á Íslandi og í Finnlandi og framkvæmdastjóri rekstrarfélags verðbréfasjóða Íslandsbanka og síðar Glitnis á árunum 2005-2007.

„Ég hóf störf hjá Festi áður N1 í júní 2011 sem fjármálastjóri eftir nauðasamning sem var gerður var í maí það ár. Félagið var skráð í kauphöll í desember 2013 og hefur sú vegferð gengið vel. Mikilvægt skref var síðan stigið þegar við keyptum gamla Festi þ.e. ELKO, Krónuna, Festi fasteignir og Bakkann vöruhótel árið 2018 og voru það stefnumótandi og mikilvæg kaup til að undirbúa félagið að orkuskiptum og þeim breytingum sem eru að verða í okkar samfélagi. Ég hef verið lánssamur að vinna með frábæru samstarfsfólki á þessum árum sem hafa gert Festi og dótturfélög af því sem þau er í dag. Ég mun sakna þess að vinna með þessu fólki en er einnig spenntur fyrir því sem framtíðin ber í skauti sér,“ segir Eggert Þór.

Guðjón Reynisson, stjórnarformaður Festi:

„Ég vil þakka Eggerti fyrir hans mikla og góða starf fyrir félagið síðastliðin ellefu ár, þ.a. sjö ár sem forstjóri. Hann hefur leitt það í gegnum mikið vaxtar- og samþættingartímabil og skilar því nú af sér traustu og vel í stakk búnu að takast á við hin gríðarstóru verkefni tengd m.a. orkuskiptum og vaxandi þátttöku í daglegu lífi hins mikla fjölda viðskiptavina þess. Ég óska Eggerti velfarnaðar við þau verkefni sem hann mun nú snúa sér að og þakka gott samstarf á liðnum árum.”