Elmar Eðvaldsson hefur gengið til liðs við Ísafold Capital Partners hf. og mun hefja störf með haustinu. Þetta kemur fram í tilkynningu. Ísafold Capital Partners er sjálfstætt starfandi sjóðastýringarfyrirtækið sem stofnað var árið 2009.

Undanfarin sjö ár hefur Elmar gegnt stöðu sjóðstjóra í eignastýringu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR). Þar bar hann ábyrgð á fjárfestingum í skuldabréfum ásamt sérhæfðum fjárfestingum lífeyrissjóðsins. Þá hefur hann starfað sem forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar H.F. Verðbréfa og í fyrirtækjaráðgjöf Saga fjárfestingarbanka á Akureyri.

Elmar er með BSc gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Elmar Eðvaldsson:

„Ég hlakka til að takast á við ný og spennandi verkefni hjá Ísafold Capital Partners og leggja mitt af mörkum við áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Rekstur sjóða félagsins hefur gengið vel á undanförnum árum og ávöxtun verið mjög góð.“

Gísli Valur Guðjónsson, framkvæmdastjóri Ísafold Capital Partners:

„Það er afar ánægjulegt að fá Elmar til liðs við okkur. Undanfarin ár hefur hann verið hluti af afar öflugu fjárfestingateymi LSR. Við horfum með mikilli bjartsýni til þess að halda vegferð okkar áfram með Elmar innanborðs. Rekstur sjóða Ísafold Capital Partners hefur gengið vonum framar og fjárfestar í sjóðum félagsins hafa notið góðrar ávöxtunar. Sem stendur erum við komnir langt með að safna fjármagni í nýjan sjóð sem hefur hlotið nafnið MF3. Sjóðurinn mun líkt og forveranir MF1 og MF2, taka þátt í fjárfestingaverkefnum íslenskra fyrirtækja og fjárfesta.“