Eva Sigurbjörg Þorkelsdóttir var nýlega kosin í stjórn ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte í Danmörku. Eva hefur starfað sem sérfræðingur í stafrænni þróun hjá Deloitte DK frá árinu 2018. Þar vinnur hún náið með stjórnendum og sérfræðingum að hönnun, þróun og innleiðingu nýrra lausna.

Hjá Deloitte DK starfa um 2.800 starfsmenn og nam velta félagsins um 3,6 milljörðum danskra króna á síðasta rekstrarári en félagið er stærsta endurskoðunar og ráðgjafafélag í Danmörku. Deloitte DK er hluti af bæði Deloitte Nordic, samstarfi allra Deloitte skrifstofa á Norðurlöndunum og Deloitte NSE sem er næst stærsta samstarfsverkefni Deloitte á heimsvísu en undir því samstarfi starfa um 45.000 starfsmenn í norður og suður Evrópu ásamt Miðausturlöndum.

Auk þess að sitja í stjórn Deloitte DK situr Eva í stjórn Women in Tech hjá Deloitte NSE og Deloitte Fonden, en hún er einnig meðstofnandi og stjórnarmaður í Kötlu Nordic, félagi sem er stuðlar að og styður tengslamyndun íslenskra kvenna á Norðurlöndunum. Áður starfaði Eva við fjármálaráðgjöf hjá Deloitte á Íslandi. Hún er með BSc gráðu viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík auk þess að vera með MCF meistaragráðu í fjármálum fyrirtækja og MABI meistaragráðu í stjórnunarreikningsskilum og viðskiptagreind frá sama skóla.

Eva rataði í síðasta mánuði inn á lista ráðgjafafyrirtækisins Góðra samskipta yfir fjörtíu íslenskar vonarstjörnur í viðskiptalífinu víða um heim . Almannatengillinn Andrés Jónsson, eigandi Góðra samskipti, tók saman umræddan lista.