Eyjólfur Magnús Kristinsson er nýr forstjóri Advania Data Centers, en hann hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra rekstrarlausnasviðs Advania frá árinu 2010 og samhliða því leitt starfsemi gagnaveranna frá 2011. Þar á undan var hann hjá Vodafone frá árinu 2004. Hann lærði verkfræði í HÍ og útskrifaðist með master í verkfræði (MSc.) frá DTU í Danmörku.

Í ljósi mikils vaxtar Advania Data Centers snýr Eyjólfur Magnús sér nú alfarið að rekstri þeirra. Sigurður Sæberg Þorsteinsson hefur tekið til starfa sem framkvæmdastjóri rekstrarlausnasviðs Advania. Ársvelta Advania Data Centers hefur tífaldast áþremur árum og viðskiptasamningar gefa fyrirheit um að veltan þrefaldist á næsta ári segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

„Advania Data Centers hafa þróast hratt úr tilraunaverkefni í að verða eitt af 100 stærstu fyrirtækjum landsins. Í gagnaverunum felast meiriháttar tækifæri, ekki aðeins fyrir fyrirtækið heldur einnig íslenskt þekkingarsamfélag. Mér finnst spennandi að leiða starfsemina áfram og takast á við þær áskoranir sem bíða okkar,” segir Eyjólfur Magnús.

Í gagnaverunum er hægt að fá aðgengi að tölvuafli til lengri eða skemmri tíma og sérfræðiþjónustu við ofurtölvur (High Performance Computing).

Ofurtölvur Advania Data Centers búa yfir gríðarlegu afli og leysa flókin tölfræðileg úrlausnarefni. Ýmsar atvinnugreinar sækjast í auknu mæli eftir að gera sína útreikninga í gagnaverunum, svo sem bílaframleiðendur, veðurstofur og tryggingafélög. Ofurtölvur Advania Data Centers hafa meðal annars verið notaðar í byltingakenndum læknisfræðirannsóknum í samstarfi við læknadeild Stanford háskóla. Sérfræðingar gagnaveranna aðstoða hugbúnaðar- og vélbúnaðarframleiðendur, og rannsóknarteymi við framkvæmd verkefnanna.

„Þrátt fyrir að kjarnastarfsemi fyrirtækisins felist í rekstri gagnavera, þá lítum við á okkur sem tæknifyrirtæki sem býður framúrskarandi sérfræðiþjónustu. Um 35 starfsmenn starfa hjá Advania Data Centers í dag og ég býst við að þeir verði orðnir 50 á næsta ári,” segir Eyjólfur Magnús.