Fyrstu vikurnar í starfi hafa verið frábærar. Það er mjög góður andi í fyrirtækinu og samstarfsfólkið hefur tekið einstaklega vel á móti mér," segir Andri Már Rúnarsson, sem í byrjun síðasta mánaðar hóf störf sem sérfræðingur í eignastýringu og fjárfestatengill hjá tryggingafélaginu Sjóvá.

Andri flutti undir lok sumars á ný til Íslands eftir að hafa búið í Hollandi um fimm ára skeið, þar sem hann lauk MSc heiðursgráðu í fjármálum og áhættustýringu frá Vrije Universiteit Amsterdam. Að námi loknu hóf hann störf í fjár- og áhættustýringu hjá tæknifyrirtækinu ASML, stærsta fyrirtæki Hollands. „Ég var í námi úti sem tiltölulega fáir komast inn í ár hvert, eða um 30 manns. Samhliða því að skrifa meistararitgerð býðst nemendum í náminu tækifæri til þess að fara í starfsnám og fór ég í slíkt hjá ASML. Að lokinni útskrift var mér svo boðið starf hjá fyrirtækinu sem ég þáði."

Andri starfaði hjá ASML í þrjú ár og á þeim tíma stækkaði fyrirtækið hratt, eða úr um 14 þúsund starfsmönnum upp í um 25 þúsund. „Það var virkilega spennandi að taka þátt í þessum mikla vexti fyrirtækisins. Það var sérlega lærdómsríkt að vera í fjárog áhættustýringu fyrirtækisins á þessum tíma. Margir bankar höfðu samband og vildu starfa með svona ört vaxandi fyrirtæki og fengum við því að læra helling af nokkrum af stærstu bönkum heims."

Því næst færði Andri sig yfir til ABN AMRO, eins stærsta banka Hollands. „Mig langaði að prófa að vinna starf þar sem reyndi meira á það sem ég lærði í náminu. Áhættustýring hjá tæknifyrirtækjum er ekki jafn flókin og hjá fjármálafyrirtækjum og því vildi ég spreyta mig á áhættustýringu hjá fjármálafyrirtæki. Ég fékk svo sannarlega að gera það hjá ABN AMRO."

Andri er í sambúð með Margréti Eddu Magnúsdóttur, nútímafræðingi og nema í hnattrænum fræðum, og saman eiga þau dótturina Eyvu Máneyju sem fagnaði nýlega þriggja ára afmæli. Andri segir dótturina gæta þess að ávallt sé fjör innan veggja heimilisins og nýtur hann þess að eyða tíma með fjölskyldunni.

Helstu áhugamál Andra eru hjólreiðar, veiði og Formúla 1. Mikil formúluáhugi er í Hollandi og leið ekki að löngu frá því að Andri settist þar að þar til hann var kominn á kaf í að fylgjast með formúlunni. „Ég auglýsi hér með eftir fleira formúluáhugafólki og leit mín að vinnufélaga hér hjá Sjóvá sem ég get skeggrætt Formúlu 1 við stendur enn yfir."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .