Fjögur ný koma inn í teymi Viðskiptaþróunar hjá Orku náttúrunnar sem nú telur sjö aðila. Það eru þau Hildur Æsa Oddsdóttir, Einar Vilmarsson, Margrét Lilja Hrafnkelsdóttir og Helga Kristín Jóhannsdóttir.

Fyrir á sviðinu starfa þau Hólmfríður Haraldsdóttir orkuverkfræðingur og Stefán Fannar Stefánsson viðskiptaþróunarstjóri en Hjálmar Helgi Rögnvaldsson leiðir sviðið.

  • Hildur Æsa Oddsdóttir er nýr sérfræðingur í orkumiðlun hjá ON. Hún kemur frá Seðlabanka Íslands þar sem hún starfaði við áhættugreiningar fjármálafyrirtækja.
  • Einar Vilmarsson er nýr sérfræðingur í orkumiðlun og kemur til ON frá Lotu verkfræðistofu. Áður vann hann sem verkfræðingur hjá ABB í Svíþjóð.
  • Margrét Lilja Hrafnkelsdóttir er nýr viðskiptaþróunarstjóri ON. Áður starfaði hún hjá Íslandsbanka um sjö ára skeið og gegndi síðast stöðu fjárfestatengils bankans. Einnig starfaði hún hjá Nordea við lausafjárstýringu.
  • Helga Kristín Jóhannsdóttir er nýr viðskiptaþróunarstjóri Jarðhitagarðs ON en hún kemur til ON frá Marel þar sem hún var í hlutverki vörustjóra.

Viðskiptaþróun hefur það hlutverk að hámarka virði þeirra auðlinda sem ON er treyst fyrir á ábyrgan hátt með jöfnun á framleiðslu virkjana, orkukaupum og notkun viðskiptavina ON. Viðskiptaþróun sér einnig um uppbyggingu Jarðhitagarðs ON sem er öflugur vettvangur fyrir jarðvarmatengda nýsköpun, rannsóknir og þróun.