Memento hefur ráðið til sín fjóra nýja starfsmenn. Hjá fyrirtækinu, sem sérhæfir sig í þróun og uppsetningu á stafrænum veskjum, starfa nú 13 manns.

Yara Polana mun sinna þróun viðmóts á hugbúnaðarlausnum Memento. Yara er með hönnunargráðu frá Listaháskóla Íslands og hefur starfað í upplýsingatæknigeiranum við forritun og hönnun undanfarin 15 ár, m.a. hjá Yay, Bioeffect og Netgíró. Fjölhæfni Yöru sem forritari, hönnuðar og tónlistarkonu hefur vakið athygli víða, t.d. í Mósambík fyrir að vera ein af leiðandi konum í tæknigeiranum. Yara er búsett á Reykjanesinu ásamt eiginkonu sinni, Sunnu Friðjónsdóttur, tónskáldi og heilara ásamt tveimur kisum þeirra.

Arnþór Hjaltason kemur inn í bakendaþróun hjá Memento. Arnþór er með B.Sc gráðu í hugbúnaðarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Hann hefur áður starfað við þróun hugbúnaðar hjá Meniga, Sýn og 365 miðlum. Arnþór er í sambúð með Rowena H. Larenio.

Þorvaldur Rúnarsson mun sinna þróun viðmóts á hugbúnaðarlausnum Memento. Hann lauk B.Sc. gráðu frá Háskóla Íslands 2018, en hefur starfað sem forritari síðan 2015 m.a. fyrir Origo, AppDynamic, Dohop og Sidekick. Unnusta Þorvalds er Drífa Sóley Heimisdóttir forritari hjá Nova og eiga þau saman 2 börn.

Angela Tye mun starfa sem skrifstofustjóri Memento. Hún er með BA gráðu frá Listaháskólanum í London og hefur starfað á sviði hönnunar og samskipta og stofnaði Graen Studios, sérverslun og studio fyrir hönnunarvörur tengdar plöntum. Angela flutti til Íslands frá Bretlandi í byrjun árs 2022 ásamt barnsföður og ársgamalli dóttur þeirra.

Memento hefur leigt tækni sína til Íslandsbanka fyrir rekstur á Kass appinu og bandaríska nýbankann Marygold&Co. Memento leggur nú áherslu á að aðstoða fyrirtæki í Norður-Ameríku að koma upp einföldu bankaappi undir eigin vörumerkjum á skömmum tíma.