Jón Kolbeinn Guðjónsson hefur verið ráðinn í starf framkvæmdastjóra Eignaumsýslusviðs Reita og mun mæta til starfa í upphafi næsta árs. Hann tekur við starfinu af Andra Þór Arinbjörnssyni sem var ráðinn framkvæmdastjóri J.E Skjanna byggingaverktaka ehf. á dögunum.

Jón Kolbeinn hefur starfað hjá Isavia frá árinu 2013. Hjá Isavia gegndi hann fyrst stöðu verkefnastjóra fjárfestingaverkefna, síðan verkefnastjóra viðskiptaþróunar og frá árinu 2019 hefur hann gegnt starfi deildarstjóra verkfræði- og framkvæmdadeildar.

Jón Kolbeinn Guðjónsson
Jón Kolbeinn Guðjónsson

Í tilkynningu Reita segir að sem deildarstjóri verkfræði- og framkvæmdadeildar Isavia hafi Jón Kolbeinn komið að framkvæmdaverkefnum, aðallega á Keflavíkurflugvelli, samningum við verktaka, samskiptum við leigutaka og rekstraraðila, komið að innleiðingu á verkferlum og verklagi og hefur hann reynslu af opinberum innkaupum.

Jón Kolbeinn er byggingartæknifræðingur frá háskólanum í Aarhus og tók síðan M.Sc. í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2013.