Magnús Hafliðason hefur verið ráðinn forstjóri Domino's Pizza á Íslandi. Hann tekur við af Birgi Erni Birgissyni sem hefur verið forstjóri frá árinu 2011. Greint er frá ráðningu Magnúsar í fréttatilkynningu.

„Magnús er ekki ókunnur félaginu eða vörumerkinu en hann hóf fyrst störf árið 1999 sem pizzasendill og hefur sinnt meira og minna öllum störfum innan félagsins. Allt í allt telur reynsla hans hjá vörumerkinu yfir 16 ár þar sem hann starfaði m.a. sem framkvæmdastjóri Domino's í Damörku 2006-2007, rekstrar- og markaðsstjóri á Íslandi 2011-2014, framkvæmdastjóri Domino's í Noregi 2014-2017 og sérfræðingur í rekstar- og markaðsmálum á erlendum mörkuðum Domino's Pizza Group á árunum 2018-2019,“ segir í tilkynningu.

„Síðastliðið ár hjá Sýn hefur verið lærdómsríkt og gefandi. Það hefur verið frábært að kynnast félaginu og þeim góða hópi sem þar starfar. Ég óska þeim alls hins besta en nú liggur leiðin aftur „heim“ í pizza bransann.

Ég tek við keflinu af Birgi Erni sem ég þekki vel og leitt hefur félagið af myndarskap síðustu ár í gegnum mikla uppbyggingu og síðar áskoranir tengdar Covid-19. Domino's er vörumerki með sterka stöðu á íslenskum veitingamarkaði og tryggan hóp viðskiptavina. Ég hlakka til þess að komast í pizzabransann á ný og vinna að enn frekari sigrum með einstöku teymi starfsmanna,“ er haft eftir Magnúsi.

„Það er virkilega ánægjulegt að fá Magnús með okkur í verkefnið enda þekkir hann félagið og sögu þess mjög vel. Hann hefur haldgóða reynslu af af Domino's og þaulvanur bæði rekstrar- og markaðsmálum vörumerkisins hér og í Skandinavíu,“ segir Birgir Bieltvedt , sem leiðir hóp fjárfesta sem festu kaup á Domino's á Íslandi nýverið.

Magnús er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands og starfar í dag sem forstöðumaður samskipta- og markaðssviðs Sýnar og mun sinna því starfi þar til nýr aðili hefur verið ráðinn.