Gauti Reynisson hefur verið ráðinn forstjóri City Leisure Group. Hann mun hefja störf hjá félaginu í ágúst en Gauti hefur verið framkvæmdastjóri leigufélagsins Heimstaden á Íslandi og forvera þess Heimavalla undanfarin ár.

City Leisure Group er evrópskt félag sem er að mestu í eigu íslenskra aðila. Það vinnur að opnun flugupplifunarsýninga fyrir ferðamenn í nokkrum af stærstu borgum Evrópu á næstu árum, að því er segir í tilkynningu.

Stefnt er á að opna fyrstu tvær sýningarnar á næstu misserum, fyrst í Berlín undir nafninu This is Germany og því næst í Vínarborg undir nafninu This is Austria. Sýningarnar eru sagðar klæðskerasniðnar að hverjum áfangastað.

Fyrirmyndin kemur frá Hollandi en sýningin This is Holland hefur verið starfrækt í Amsterdam frá árinu 2017. City Leisure Group hefur auk Berlínar og Vínarborgar náð samkomulagi um að koma upp sýningum í fimm evrópskum borgum til viðbótar.

„Ég er mjög ánægður með að fá Gauta í hópinn til að leiða næstu skref félagsins. Við höfum unnið að þessu risastóra verkefni í um sex ár og með samningum sem við höfum náð um fjármögnun og samstarfsaðila er nú komið að næsta fasa í okkar vegferð,“ segir Magnús Magnússon, stjórnarformaður City Leisure Group.

„Á meðal samstarfsaðila okkar er hið hollenska félag TICA sem við kynntumst í tengslum við uppbyggingu FlyOver Iceland hér á landi. TICA eru fremstir í heiminum í hönnun sýninga af þessum toga og við erum ótrúlega spennt fyrir þeim möguleikum sem samstarfið býður upp á. Fyrsti liðurinn er vel á veg kominn því við munum opna This is Germany í Berlín í lok næsta árs á besta stað í borginni við Kurfürstendamm. Þar erum við hluti af einni metnaðarfyllstu fasteignauppbyggingu borgarinnar á seinni árum.“

„Ég hlakka mikið til að leiða metnaðarfulla uppbyggingu City Leisure Group áfram. Að félaginu standa öflugir aðilar, bæði innlendir og erlendir, með mikla reynslu af rekstri fasteigna undir afþreyingu. Framundan er spennandi vegferð í nokkrum af stærstu borgum Evrópu þar sem við ætlum að bjóða upp á upplifun sem á sér enga líka,“ segir Gauti Reynisson, forstjóri City Leisure Group.